Skip to main content
20. maí 2019

Verðlaunaður fyrir framúrskarandi lokaverkefni um félagsleg áföll

Félagsleg áföll eins og einelti, opinber smánun og framhjáhald hafa sterk tengsl við einkenni áfallastreitu og félagskvíða. Þetta sýna niðurstöður meistararannsóknar Arnars Guðjóns Skúlasonar sálfræðings en hann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni nema í starfsréttindanámi í sálfræði á hinu árlega Sálfræðiþingi Sálfræðingafélags Íslands á dögunum.

Arnar Guðjón brautskráðist með meistaragráðu í hagnýtri sálfræði frá Háskóla Íslands í fyrravor en lokaverkefni hans hverfðist um áföll af ýmsum toga með sérstaka áherslu á félagsleg áföll. „Markmið verkefnisins var að kanna hvort til séu a.m.k. tvær gerðir áfalla; áföll sem einkennast af ógn við líf og félagsleg áföll þar sem einstaklingur finnur fyrir höfnun, niðurlægingu eða verður sér til skammar við félagslegar aðstæður. Dæmi um þetta væri einelti, framhjáhald, opinber aðför á samfélagsmiðlum, andlegt ofbeldi og þess háttar. Sér í lagi vildi ég kanna algengi þess konar áfalla og áhrif þeirra á einkenni áfallastreitu, félagskvíða og annarra sálmeina,“ segir Arnar Guðjón.

Aðspurður segir Arnar hugmyndina hafa kviknað í samvinnu við leiðbeinanda hans, Andra Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild sem hefur lagt áherslu á félagskvíða í meðferðarvinnu sinni og rannsóknum. „Hann benti mér á rannsóknir þar sem tengslin milli streituvaldandi félagslegra atburða, einkenni áfallastreitu og félagskvíðaeinkenna voru könnuð. Mér fannst þessar rannsóknir strax áhugaverðar og fór auk þess að taka eftir því í starfsnáminu mínu að sumir skjólstæðingar, sem virtust glíma við félagskvíðavanda, höfðu áleitnar minningar og ímyndir um atburði sem vel gátu talist til félagslegra áfalla,“ segir hann enn fremur.

Í rannsókninni studdist hann við gögn úr hinni viðamiklu rannsókn Áfallasaga kvenna sem ýtt var úr vör í fyrravor en markmið hennar er að rannsaka tíðni ýmiss konar áfalla hjá íslenskum konum og áhrifum þeirra á heilsufar. „Spurningar um félagsleg áföll eru meðal þess sem finna má í rannsókninni og mitt verkefni var að að greina fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar með tilliti til faraldsfræði og áhrifa áfalla og sér í lagi félagslegra áfalla. Þannig vann ég með gögn fyrstu 12.564 kvennanna sem tóku þátt,“ segir Arnar Guðjón. 

Niðurstöðurnar voru um margt forvitnilegar. „Áhugaverðustu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að margar konur, um fjórðungur úrtaksins, taldi streituvaldandi félagslegan atburð vera versta áfallið sem þær höfðu upplifað. Margir þessara atburða, sér í lagi einelti, opinber smánun, framhjáhald og önnur niðurlægjandi upplifun, höfðu sterk tengsl við einkenni áfallastreitu og félagskvíða,“ segir hann.

Jafnframt voru konurnar sem tóku þátt í rannsókninni spurðar út í versta áfall sem þær hefðu lent í, þ.e. hvort þær upplifðu ógn við líf eða höfnun og/eða niðurlægingu. „Sum áföll virtust einkennast fyrst og fremst af mikilli höfnun og/eða niðurlægingu sem gæti bent til þess að félagsleg áföll séu í raun ein tegund áfalla. Þó virtust áföll sem einkenndust bæði af mikilli ógn við líf og höfnun og/eða niðurlægingu hafa verst áhrif á andlega heilsu og félagslega virkni kvennanna, sem er mjög áhugaverð og óvænt niðurstaða. Loks kom í ljós að tvær af hverjum þremur konum, sem líklega glíma við félagskvíða, höfðu einkenni áfallastreituröskunar í kjölfar félagslegs áfalls. Þannig gæti verið að áfallastreita í kjölfar félagslegs áfalls gegni veigamiklu hlutverki við tilurð félagskvíðavanda hjá sumum konum,“ bætir Arnar Guðjón við.

Arnar Guðjón undirstrikar þó að aðeins hafi verið um fyrstu niðurstöður að ræða og að nauðsynlegt sé að skoða allt úrtakið í rannsókninni Áfallasaga kvenna áður en stórar ályktanir séu dregnar. „En ef rétt reynist og sambærilegar niðurstöður koma í ljós í öðrum rannsóknum má ætla að niðurstöðurnar geti haft veruleg áhrif á flokkun áfalla og skilning okkar á áfallastreituröskun og tilurð félagskvíða. Þá gætu niðurstöðurnar haft áhrif á meðferð við félagsfælni þar sem áfallamiðuð meðferðarinngrip, s.s. vinna með ímyndir, gætu líklega gagnast mörgum,“ segir hann að endingu.

Arnar Guðjón Skúlason tekur við viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni úr hendi Bóasar Valdórssonar, varaformanns Sálfræðingafélags Íslands.