Skip to main content
27. október 2020

Varpar ljósi á upplifun lögreglumanna af ofbeldi

Umræða um ofbeldi lögreglu gagnvart borgurunum hefur á síðustu mánuðum og misserum verið hávær og meðal annars orðið kveikja að mótmælum í ýmsum löndum heims. Að sama skapi hafa augu manna í auknum mæli beinst að þeim aðstæðum og þeirri hættu sem lögreglumenn búa við í starfi og því ofbeldi sem þeir verða sjálfir fyrir. Hvort tveggja hefur verið viðfangsefni Þórunnar Kristjánsdóttur í rannsóknum en hún mun kynna niðurstöður sínar á Þjóðarspeglinum, hinni árlegu ráðstefnu félagsvísindanna í Háskóla Íslands, sem fer fram á netinu föstudaginn 30. október. 

Erindið kallar hún Ofbeldi í störfum lögreglu: „Það er í rauninni enginn séns að fá að vera mannlegur“ en það byggist á meistaraverkefni Þórunnar í félagsfræði. „Markmið verkefnisins var að varpa ljósi á upplifun lögreglumanna af ofbeldi í störfum þeirra, hvort sem það er ofbeldi sem þeir verða fyrir sjálfir eða sem þeim finnst þeir sjálfir beita eða verða vitni að hjá öðrum lögreglumönnum. Einnig spurði ég lögreglumennina út í sína upplifun af verklagi og umfjöllun fjölmiðla um málefni lögreglunnar. Ég skoðaði einnig hvernig þessir þættir hefðu áhrif á streitu hjá lögreglumönnum,“ segir Þórunn.

Aðspurð segir Þórunn að kveikjan að verkefninu hafi verið reynsla eiginmanns hennar sem er lögreglumaður og hefur reynt ýmislegt í starfi. „Hann varð fyrir alvarlegu ofbeldi í einu útkalli og við tók í raun ekkert ákveðið ferli að hálfu lögreglunnar við að halda utan um hann. Félagar hans studdu hann auðvitað og lögð var fram kæra á hendur geranda en hún var felld niður þar sem málið var of lengi í kerfinu. Þarna fóru af stað ýmsar hugsanir og pælingar hjá mér og útkoman er verkefnið mitt,“ útskýrir hún.

Í rannsókninni tók Þórunn viðtöl tíu lögreglumenn víðs vegar af landinu og með ólíka reynslu. „Ég auglýsti eftir viðmælendum á lokaðri Facebook-síðu lögreglumanna til að reyna að fá sem fjölbreyttastan hóp til að taka þátt. Ég fann jafnframt að tenging mín við lögregluna gaf viðmælendum mínum traust í minn garð,“ segir hún.

„Ég tel málefnið mikilvægt fyrir fræðasamfélagið og samfélagið í heild því það varpar ljósi á upplifun lögreglumanna og mikilvægi þess að hugsa vel um þessa starfsstétt sem er afar mikilvæg í samfélögum. Fjölmiðlar eru gluggi samfélagsins á málefni lögreglunnar og því er sömuleiðis mikilvægt að umfjöllun þeirra sé sanngjörn,“ segir Þórunn Kristjánsdóttir sem rannsakaði upplifun lögreglumanna af ofbeldi í meistaraverkefni sínu í félagsfræði

Ósáttir við væga dóma fyrir ofbeldi gagnvart lögreglu

Þórunn segir að meðal þess sem samtölin hafi leitt í ljós sé að sjö af tíu viðmælendum hennar hafi orðið fyrir ofbeldi í starfi, þ.e. það sem telst umfram „hefðbundið hnjask“ eins og hún orðar það. Þá upplifi lögreglumenn verklag vegna ofbeldismála óskýrt og það valdi þeim streitu. „Viðmælendum mínum fannst mikill munur á því hvernig er tekið á því þegar lögreglumenn eru beittir ofbeldi í starfi miðað við hvernig er tekið á máli þegar lögreglumaður er talin beita of miklu valdi. Þá upplifðu lögreglumennirnir ósanngirni að hálfu dómskerfisins þegar þeir verða fyrir ofbeldi í starfi, en þeirra upplifun er sú að þeir sem beita lögreglumenn ofbeldi fái sjaldan dóm eða mjög vægan,“ segir Þórunn.

Jafnframt sögðust flestir viðmælendur Þórunnar upplifa fjölmiðlaumræðu ósanngjarna í garð lögreglunnar og að lögregluna skorti rödd í umræðu um umdeild mál. „Lögreglumenn eru bundnir trúnaði og hafa ekki leyfi til að verja sig þó svo að fjölmiðlar nafngreini lögreglumenn og fari jafnvel með rangt mál,“ segir Þórunn.

Allir viðmælendur Þórunnar sögðust hafa upplifað streitu á einhverjum tímapunkti í starfinu, m.a. vegna undirmönnunar innan lögreglunnar. Þeir sögðust jafnframt hafa góða reynslu af félagastuðningskerfinu sem notast er við innan lögreglunnar þegar stór mál koma upp.

Þórunn stefnir á að víkka út verkefnið með stærri rannsókn meðal lögreglumanna á öllu landinu. „Ég tel málefnið mikilvægt fyrir fræðasamfélagið og samfélagið í heild því það varpar ljósi á upplifun lögreglumanna og mikilvægi þess að hugsa vel um þessa starfsstétt sem er afar mikilvæg í samfélögum. Fjölmiðlar eru gluggi samfélagsins á málefni lögreglunnar og því er sömuleiðis mikilvægt að umfjöllun þeirra sé sanngjörn,“ segir Þórunn að endingu. 

Þórunn kynnir niðurstöður sínar á ráðstefnunni Þjóðarspeglinum 30. október sem verður að þessu sinni alfarið á netinu vegna kórónuveirufaraldursins. Erindið er hluti af málstofunni Afbrot og löggæsla sem hefst kl. 9.

Nánar um Þjóðarspegilinn á vef ráðstefnunnar.

lögreglubúningar