Skip to main content
12. mars 2019

Varpa ljósi á lesblindu með heilarafritum

""

Svokallaðri Heilaviku (e. Brain Awareness Week) er fagnað um allan heim dagana 11.-17. mars en markmið hennar er að vekja athygli almennings á mikilvægi rannsókna á þessu líffæri sem við vitum alltof lítið um. Innan Háskóla Íslands kemur heilinn við sögu í ýmsum rannsóknum, þar á meðal í nýrri rannsókn vísindamanna við Sálfræðideild sem miðar að því að kanna hvort tengsl séu á milli taugavirkni í sjónsvæðum heilans og lestrarörðugleika.

„Rannsóknin snýst um að kanna hvernig heilinn hjá bæði lesblindu og ólesblindu fólki vinnur úr sjónrænum upplýsingum um hluti. Þetta verður gert með svokallaðri heilarafritun (e. electroencephalography, EEG). Helsta markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort lestrarörðugleika megi í sumum tilfellum rekja til vandkvæða í virkni í sjónsvæðum heilans. Einnig viljum við skilja betur sjónræn ferli í heilanum almennt,“ segir Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild sem stjórnar rannsókninni.

Heiða María hefur ásamt samstarfsfólki sínu, sem stendur að Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun (Icelandic Vision Lab) við Háskóla Íslands, rannsakað sjónskynjun fólks með lestrarörðugleika undanfarin ár. „Okkar fyrri rannsóknir á þessu sviði hafa allar falist í því að mæla hegðun, t.d. hversu nákvæmlega eða hratt fólk ber kennsl á hluti. Samkvæmt niðurstöðum okkar eiga a.m.k. sumir lesblindir ekki bara í erfiðleikum með að bera kennsl á orð í sjón heldur einnig suma – en þó ekki alla – aðra hluti þegar vel er að gáð. Lestrarörðugleikar gætu því í sumum tilfellum verið dæmi um almennari röskun á sjónrænni úrvinnslu,“ segir Heiða María.

Hvernig bregst heilinn við mismunandi myndum?
Sjónum í rannsókninni, sem nú er að hefjast, er því beint að heilastarfseminni og verður hún skoðuð hjá fólki sem glímir við lestrarörðugleika og þeim sem gera það ekki. „Í nýju rannsókninni, sem styrkt er með verkefnisstyrk frá Rannsóknasjóði Íslands og styrk frá Rannsóknasjóði HÍ, er gert ráð fyrir að gera hvort tveggja, það er mæla möguleg vandkvæði í hlutakennslum og tengja við möguleg vandkvæði í sjónrænni úrvinnslu heilans,“ útskýrir hún.

Aðspurð hvernig slíkar rannsóknir fara fram segir Heiða að gert sé ráð fyrir að nota meðal annars svokallaða SSVEP-aðferð (e. steady-state visually evoked potential) en hana má til dæmis nota til að kanna hversu vel heilinn gerir greinarmun á ákveðnum hlutum. „Sem dæmi má nefna er að ef kanna á hvort heilinn geri greinarmun á mynd af tveimur mönnum, köllum þá Jóa og Óla, þá er hægt að birta myndir af Jóa og skipta svo af og til í mynd af Óla (t.d. Jói, Jói, Jói, Jói, Óli, Jói, Jói, Jói, Jói, Óli, Jói…). Síðan er kannað hversu mikið heilavirknin sveiflast í takt við myndbirtingarnar, og þá sérstaklega hvort að heilinn sveiflist í takt við það þegar skipt er á milli myndanna af Jóa og Óla. Þeim mun meira sem heilinn sveiflast í takt við þær breytingar, þeim mun líklegra er að taugafrumur í sjónkerfinu geri greinarmun á Jóa og Óla, og þannig má kanna einstaklingsmun á getu heilans til að gera greinarmun á sjónrænum hlutum,“ segir Heiða María enn fremur.

Rannsóknin snýst um að kanna hvernig heilinn hjá bæði lesblindu og ólesblindu fólki vinnur úr sjónrænum upplýsingum um hluti. Þetta verður gert með svokallaðri heilarafritun (e. electroencephalography, EEG). Helsta markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort lestrarörðugleika megi í sumum tilfellum rekja til vandkvæða í virkni í sjónsvæðum heilans. 

Niðurstöður gætu nýst í nýjar aðferðir til að skima fyrir lesblindu
Rannsóknarverkefnið er gott dæmi um það hvernig háskólar landsins sameina krafta sína en auk Heiðu Maríu og samstarfsfólks hennar við Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun kemur Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild HÍ og sérfræðingur í lestri og lestrarörðugleikum, Paolo Gargiulo, dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og samstarfsfólk hans, og Yvonne Höller, lektor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í heilarafritunarmælingum, að rannsókninni. 

„Við gerum ráð fyrir að fólk með lesblindu sýni þess merki að svokölluð æðri sjónsvæði heilans, sem sjá um að bera kennsl á hluti í sjón, geri ekki jafnmikinn greinarmun á sumum hlutum og æðri sjónsvæði þeirra sem ekki eiga við lestrarörðugleika að stríða. Við gerum þó ráð fyrir að það eigi aðeins við í sumum tilfellum en ekki öllum. Við búumst við því að þetta eigi helst við í þeim tilfellum þar sem um er að ræða hlutaskynjun sem reynir á svipuð sjónræn ferli og notuð eru í lestri,“ segir Heiða María aðspurð um væntingar um niðurstöður rannsóknanna.

Miklu skiptir að öðlast betri skilning á fylgifiskum og orsökum lesblindu enda getur hún haft mikil áhrif á líf fólks. „Enn er langt í land en ef rannsóknin skilar áhugaverðum niðurstöðum getur á endanum verið að hægt sé að nýta niðurstöðurnar til að þróa aðferðir til að skima fyrir mögulegum lestrarörðugleikum áður en þeir koma fram og þróa ný meðferðarform við lestrarörðugleikum sem hentað gætu þeim sem eru með sjónræna lestrarörðugleika,“ segir Heiða María að endingu.

Þess má geta að í tilefni Heilavikunnar stendur Sálfræðideild Háskóla Íslands fyrir barsvari (e. pub quiz) um heilann í Stúdentakjallaranum miðvikudaginn 13. mars kl. 17. Heiða María og samstarfsfélagar hennar við Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun stjórna keppninni, en hún er öllum opin og vegleg verðlaun í boði

Sálfræðingar að stöfum með heilarafrit