Skip to main content
14. janúar 2018

Tímarit um uppeldi og menntun komið út

Tímarit um uppeldi og menntun komið út - á vefsíðu Háskóla Íslands

Blásið var til útgáfuhófs í tilefni útkomu nýs tölublaðs Tímarits um uppeldi og menntun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þann 12. janúar síðastliðinn. Í tímaritinu eru sex ritrýndar fræðigreinar um ólík efni í menntavísindum eftir fimmtán höfunda auk ritdóms. Höfundar koma frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og úr atvinnulífinu.

Meðal umfjöllunarefna í tímaritinu eru nemendur af erlendum uppruna, aðgengi fullorðinna að námi á framhaldsskólastigi og lesskilningur kynjanna. Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus í félagsfræði við Háskóla Íslands, hélt erindi í hófinu um grein sína í tímaritinu sem fjallar um ævistarf Brodda Jóhannessonar, eins áhrifamesta skólamanns tuttugustu aldar hér á landi, en hann lét til sín taka á flestum vígstöðum menntunar- og skólastarfs.

Árið 2015 voru tímaritin Uppeldi og menntun og Tímarit um menntarannsóknir sameinuð undir heitinu Tímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið og Félag um menntarannsóknir standa að útgáfunni og eru ritstjórar tímaritsins tveir, Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Hermína Gunnþórsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Tímaritið kemur út í rafrænu formi tvisvar á ári og er hvort hefti um sig prentað og sent áskrifendum. Auk þess er ritið í boði í lausasölu.

Myndir úr útgáfuhófinu.

Blásið var til útgáfuhófs í tilefni af útkomu Tímarits um uppeldi og menntun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þann 12. janúar síðastliðinn. Á myndinni eru ritstjórar tímaritsins, Hermína Gunnþórsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, og Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.