Skip to main content
6. janúar 2017

Þúsund þátttakendur á ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs

Átjánda ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum fór fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2017 og tókst afar vel. Tæplega 1000 manns tóku þátt í ráðstefnunni sem gerir hana þá fjölmennustu frá upphafi.

Dagskráin var að venju mjög fjölbreytt en 290 rannsóknir voru til umfjöllunar, bæði í formi erinda og veggspjalda. Viðfangsefni rannsóknanna voru af ólíkum toga og úr flestum greinum líf- og heilbrigðisvísinda. Á meðal efnisflokka á dagskrá má nefna: meðgöngu og fæðingu, andlega heilsu, íþróttir, næringu, tannheilsu, lyfjafræði og lífvirkni, heilbrigðisþjónustu, sameindalíffræði, ónæmisfræði og endurhæfingu. Ágrip allra rannsókna sem kynntar voru á ráðstefnunni voru gefin út í fylgiriti Læknablaðsins.

Líkt og á fyrri ráðstefnum voru bæði gestafyrirlestrar og opnir fyrirlestrar fyrir almenning á dagskránni. Ráðstefnan hófst með fyrirlestri Davíðs Ottós Arnar, yfirlæknis hjartalækninga á Landspítala og gestaprófessors við Læknadeild, um umbreytingu erfðaupplýsinga í hagnýtar klínískar upplýsingar. Seinni dagurinn hófst með fyrirlestri Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði við Hagfræðideild, um það hvernig hugtökin marktækni og p-gildi eru notuð við ályktanir í rannsóknum sem byggja á mælingum.   

Almenningi var boðið til opins fyrirlestrar þar sem fjallað var um tvö málefni úr ranni líf- og heilbrigðisvísinda á aðgengilegan og fræðandi hátt. Um 200 gestir hlýddu á þær Ernu Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við Læknadeild, og Rögnu B. Garðarsdóttur, dósent í félagssálfræði við Sálfræðideild. Erna fjallaði um stofnfrumurannsóknir. Hún greindi meðal annars frá virkni stofnfruma í líkamanum, hvernig stofnfrumur geta nýst í meðferðar- og rannsóknarskyni og framförum í erfðarannsóknum. Ragna fjallaði um hamingju og sjálfsmynd í neyslusamfélagi nútímans. Hún greindi frá rannsóknum sínum á sálfræðilegum afleiðingum hugmyndafræði neyslusamfélagi og tengslum efnishyggju við hamingju, líkamsmynd og skuldasöfnun.  

Við ráðstefnuslit voru fjórir ungir og efnilegir vísindamenn verðlaunaðir fyrir rannsóknir sínar. Til gamans má geta að margar þeirra rannsókna sem voru til umfjöllunar á ráðstefnunni rötuðu í fjölmiðla og umfjöllun um ráðstefnuna í fjölmiðlun var mjög góð.

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni.

Frá 18. ráðstefnunni í líf- og heilbrigðisvísindum
Frá 18. ráðstefnunni í líf- og heilbrigðisvísindum