Skip to main content

Ungir vísindamenn verðlaunaðir við ráðstefnuslit

5. jan 2017

Fjórir ungir vísindamenn voru verðlaunaðir fyrir rannsóknarverkefni sín á átjándu ráðstefnunni um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Háskólatorgi þann 4. janúar síðastliðinn að viðstöddum Jón Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala og öðrum ráðstefnugestum.

Ása Bryndís Guðmundsdóttir, doktorsnemi í lyfjafræði við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til ungs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, fyrir verkefnið „Effects of Exopolysaccharides from Cyanobacterium aponinum obtained from the Blue Lagoon on stimulated T cells“. Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild og formaður valnefndar, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Hallur Reynissson, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar sem Félag íslenskra lífeðlisfræðinga veitir ungum og efnilegum vísindamanni fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina. Hallur hlaut verðlaunin fyrir verkefnið „The Loss of A-Type Current in the Mitf Mutant Olfactory Bulb Projection Neurons“. Marta Guðjónsdóttir, lektor við Læknadeild, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Samúel Sigurðsson, doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar, fyrir rannsóknir tengdar bólusetningum fyrir pneumókokkum í börnum á Íslandi. Margrét Björnsdóttir, skrifstofustjóri velferðarráðuneytisins, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir rannsóknir sem sýna fram á að nota megi útrunnar og smithreinsaðar blóðflögur til ræktunar á stofnfrumum í meðferðarskyni. Karl Örn Karlsson, lektor við Tannlæknadeild og formaður valnefndar fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Frá vinstri: Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Hallur Reynisson, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch og Samúel Sigurðsson.
Frá vinstri: Inga Þórsdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Páll Matthíasson, Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Hallur Reynisson, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, Samúel Sigurðsson, Margrét Björnsdóttir, Karl Örn Karlsson, Marta Guðjónsdóttir og Karl Andersen.
Frá vinstri: Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Hallur Reynisson, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch og Samúel Sigurðsson.
Frá vinstri: Inga Þórsdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Páll Matthíasson, Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Hallur Reynisson, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, Samúel Sigurðsson, Margrét Björnsdóttir, Karl Örn Karlsson, Marta Guðjónsdóttir og Karl Andersen.