Skip to main content
17. júní 2021

Sýning um forsetatíð og störf Vigdísar Finnbogadóttur verður opnuð í Loftskeytastöðinni

Sýning um forsetatíð og störf Vigdísar Finnbogadóttur verður opnuð í Loftskeytastöðinni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sýning sem helguð verður forsetatíð og störfum Vigdísar Finnbogadóttur verður opnuð í Loftskeytastöðinni við hlið Veraldar - húss Vigdísar á næsta ári samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda og Háskóla Íslands. Viljayfirlýsingin var undirrituð á hátíðarsamkomu í Hátíðasal Háskóla Íslands í morgun sem haldin var í tilefni af 110 ára afmæli háskólans. Við athöfnina afhenti Vigdís Finnbogadóttir Háskóla Íslands muni frá forsetatíð sinni sem verða m.a. grundvöllur sýningarinnar. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu viljayfirlýsinguna. Samkvæmt henni mun ríkisstjórnin styðja undirbúning sýningarinnar í Loftskeytastöðinni, en þess má geta að stöðin var vígð á þessum degi árið 1918. Í húsinu verður jafnframt aðstaða til fræðastarfs, rannsókna og ýmiss konar miðlunar. 

„Áhrif Vigdísar Finnbogadóttur á íslenskt samfélag og sérstaklega Íslendinga sem ólust upp í forsetatíð hennar verða varla ofmetin og þar á meðal auðvitað áhrifin af því þegar Íslendingar vöknuðu upp einn júnímorgun árið 1980 og höfðu kosið konu þjóðhöfðingja landsins, fyrsta þjóðin sem gerði það. Og Vigdísi tókst á ótrúlega skömmum tíma að sameina þjóðina að baki sér. Hin almenna afstaða á þeim tíma var að forseti ætti að vera sameiningartákn þjóðarinnar og í Vigdísi fann þjóðin fljótlega slíkt sameiningartákn,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu á athöfninni.

Viljayfirlýsingin kveður jafnframt á um að sýningin fái árlega framlag úr ríkissjóði en gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands annist og reki sýninguna og fræðastarf í Loftskeytastöðinni sem verður samþætt starfsemi Vigdísarstofu í Veröld – húsi Vigdísar. Áformað er að sýningin og önnur aðstaða í Loftskeytastöðinni verði opnuð á næsta ári. 

Á hátíðarsamkomunni í dag tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir jafnframt, um leið og hún óskaði Háskóla Íslands og þjóðinni allri til hamingju með daginn, að hún hygðist afhenda skólanum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum til eignar og varðveislu ýmsa muni frá forsetatíð sinni, s.s. bréf, gjafir erlendra þjóðhöfðingja og fatnað. Þeir eru stofninn að sýningunni í Loftskeytastöðinni. 

„Það er einlæg von mín að ýmsir þeir munir, sem hér er um að ræða, veiti í senn innsýn og skilning á íslenskri menningu og sess hennar í sögu og samtíð heimsmenningar. Fátt gæti glatt mig meira en að þessi gjöf gæti veitt ungu fólki innblástur og þekkingu til að átta sig á að enginn er eyland. Við erum hluti af heild, þar sem vits er þörf þeim er víða ratar,“ sagði Vigdís þegar hún afhenti fyrstu munina á athöfninni í dag. Um er að ræða forláta sverð til varnar menningu og menntun, sem Vigdís fékk að gjöf þegar henni hlotnaðist heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Tampere í Finnlandi, og tvo kjóla frá forsetatíð hennar, þar á meðal frægan ullarkjól sem Vigdís klæddist þegar hún var hyllt á svölum húss síns við Aragötu daginn eftir að hún var fyrst kjörin forseti Íslands árið 1980.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhendir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, sverð sem hún fékk að gjöf þegar henni hlotnaðist heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Tampere í Finnlandi. Það verður ásamt fleiri munum stofninn að sýningunni í Loftskeytastöðinni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands hefur mótað samfélagið í 110 ár

Eitt hundrað og tíu ár eru í dag liðin frá því að Háskóli Íslands var formlega stofnaður í Alþingishúsinu við Austurvöll en á fyrsta starfsári hans voru 11 kennarar og 45 nemendur við fjórar deildir skólans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Háskóla Íslands og hefur skólinn breyst úr embættismannaskóla í alþjóðlegan rannsóknarháskóla sem nýtur viðurkenningar og hefur ríkar skyldur við bæði íslenskt samfélag og heiminn allan.

Í ávarpi sínu á hátíðarsamkomunni rifjaði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, upp að það hefði falist nokkur fífldirfska í því að stofna háskóla á Íslandi árið 1911, þegar landsmenn voru aðeins rétt rúmlega 85 þúsund talsins og skólinn átti ekkert hús. Forystumenn skólans þá hafi gert sér fulla grein fyrir vanmætti hans en voru þó fullvissir um að stofnun hans væri gæfuspor fyrir íslenska þjóð og að skólinn gæti þegar fram liðu stundir „lagt sinn litla skerf til heimsmenningarinnar, numið ný lönd í ríki vísindanna, í samvinnu við aðra háskóla,“ eins og það var orðað. Sú spá hafi sannarlega ræst, sagði rektor. 

„Staða Háskóla Íslands í nútímanum er sterk. Háskólinn er alhliða rannsóknaháskóli sem starfar nú á fimm fræðasviðum í 26 deildum. Frá stofnun hefur skólinn brautskráð um 55 þúsund nemendur sem hafa látið að sér kveða á öllum sviðum samfélags og atvinnulífs. Nemendur skólans koma nú frá tæplega eitt hundrað þjóðlöndum og eru alls um 16 þúsund talsins. Þessi vaska sveit mun hafa afgerandi áhrif á að móta framtíð íslenskrar þjóðar,“ benti rektor enn fremur á.

Auk þeirra Katrínar, Vigdísar og Jóns Atla tók Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, til máls á hátíðarsamkomunni. Hún lagði áherslu á að Háskóli Íslands væri samfélag nemenda, kennara og annars starfsfólks sem hefði það sameiginlega markmið að skapa öflugan og samheldinn háskóla, sem væri uppspretta þekkingar og nýsköpunar, samfélaginu til framfara. „Í Háskóla Íslands er að finna fjölbreyttan hóp stúdenta, fólk úr ýmsum áttum með alls konar drauma sem eiga það sameiginlegt að færa líf í byggingarnar í Vatnsmýrinni og á Stór-Reykjavíkursvæðinu,“ sagði Isabel. Hún bætti því jafnframt við að að skólinn rækti hlutverk sitt sem opið samfélag best með því að tryggja aðgengi allra að námi óháð félagslegum eða efnahagslegum bakgrunni.

Fleiri myndir frá athöfninni
 

Katrín Jakobsdóttir, Jón Atli Benediktssn, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson.