Skip to main content
25. janúar 2016

Sumarnám og rannsóknir við fremstu háskóla heims

Nemendum við Háskóla Íslands býðst að stunda nám eða rannsóknir í sumar við þrjá af fremstu háskólum Bandaríkjanna, Stanford, Caltech og Columbia. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2016. Nemendur eiga möguleika á að hljóta styrki.

Kjörið er fyrir nemendur að taka hluta af námi sínu við erlenda háskóla yfir sumartímann og getur það verið góður kostur fyrir þá sem ekki hafa tök á að stunda nám erlendis í eitt misseri eða heilt skólaár.

Sumarnám við Stanford og Columbia
Við Stanford-háskóla í Kaliforníu geta nemendur í grunnnámi sótt um 8 vikna sumarnám í svonefndu Stanford Summer International Honors Program (SSIHP). Stanford er einn fremsti rannsóknaháskóli Bandaríkjanna og er mikill fengur að samstarfi hans og Háskóla Íslands. Nemendur Háskóla Íslands hafa tekið þátt í SSIHP við Stanford undanfarin sumur og hafa verið afar ánægðir með námið og dvölina alla. Nemendur greiða skólagjöld, en veittir verða tveir styrkir til nemenda fyrir skólagjöldum, að upphæð 8.128 dollarar.

Sumarnámið við Columbia-háskóla í New York borg stendur yfir í sex vikur, og eru tvö tímabil í boði. Nemendur greiða skólagjöld en allt að tveir styrkir eru í boði fyrir þeim, að upphæð 9.420 dollarar. Columbia  er í hópi Ivy League háskóla en það eru átta rótgrónir og virtir háskólar í Bandaríkjunum sem raða sér efst á lista yfir bestu skóla í heimi. Fyrstu nemendurnir frá Háskóla Íslands fóru til Columbia sumarið 2015 og bera nemendur náminu vel söguna og mæla eindregið með því.

Sumarrannsóknarverkefni við Caltech
Nemendur HÍ geta sótt um styrk til að vinna 10 vikna sumarrannsóknarverkefni við Caltech, California Institute of Technology. Tveir nemendur verða fyrir valinu og hljóta 6.000 dollara framfærslustyrk hvor. Háskóli Íslands og Caltech hafa átt í samstarfi um SURF verkefni (Summer Undergraduate Research Fellowship) frá árinu 2008. Caltech, sem er í Pasadena, Kaliforníu, er einn allra fremsti rannsóknaháskóli heims og leggur aðaláherslu á raunvísindi og verkfræði.

Skrifstofa alþjóðasamskipta veitir ráðgjöf við val á sumarskólum og hefur milligöngu um tilnefningu nemenda.

Nemendur Háskólans geta einnig sótt um sumarnám við fjölmarga aðra spennandi háskóla.