Styrkir til rannsókna á húsnæði | Háskóli Íslands Skip to main content

Styrkir til rannsókna á húsnæði

8. desember 2017

Íbúðalánasjóður hyggst úthluta styrkjum til meistara- og doktorsnema sem vilja stunda rannsóknir á húsnæðismálum við alla sjö háskólana á Íslandi. Rektorar háskólanna, ráðherra húsnæðismála og forstjóri Íbúðalánasjóðs hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. 

Veittir verða allt að 15 styrkir á ári og getur hver og einn numið að hámarki ein milljón króna. Með veitingu styrkjanna er vonast til að fjölga verkefnum og rannsóknum á sviði húsnæðismála sem geta eflt íslenskan húsnæðismarkað og stuðlað að auknu jafnvægi á honum. 

Verulegur vandi hefur skapast á húsnæðismarkaðnum hér á landi síðustu misseri og eitt af því sem talið er geta komið í veg fyrir að svipað neyðarástand skapist að nýju er efling rannsókna tengdum húsnæðismálum. 

„Það er full þörf á að rannsaka húsnæðismarkaðinn. Ég bind vonir við að styrkirnir nýtist nemendum allra íslensku háskólanna vel og að þeir verði duglegir að sækja um þá,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra við undirritun yfirlýsingarinnar. „Með auknu samstarfi á milli Íbúðalánasjóðs og fræðasamfélagsins verður vonandi hægt að stuðla að því að sem flestir íbúar landsins geti búið við húsnæðisöryggi og að meira jafnvægi komist á húsnæðismarkaðinn. Við þurfum á því að halda sem fyrst.“ 

„Það er mjög ánægjulegt að styrkir séu veittir til rannsókna á þessum vettvangi,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við undirritun yfirlýsingarinnar. „Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á tengsl við atvinnulíf og samfélag.  Rannsóknir sem styðja beint við þróun og gæði húsnæðis falla einmitt undir það því þær bæta lífsgæði þjóðarinnar almennt. Við Háskóla Íslands fara fram mjög fjölbreyttar rannsóknir á mörgum fræðasviðum sem lúta að húsnæði og í því sambandi má nefna rannsóknir á skipulagi, umhverfisáhrifum, sjálfbærni, burðarþoli, fjölbreytni, lagalegum og félagslegum þáttum, byggingarefnum, álagi á byggingar í jarðskjálftum, rétti húseigenda varðandi útleigu í gegnum miðlun á borð við AirBnB og hér er fátt eitt talið. Þessi nýi sjóður ýtir án efa undir rannsóknir af þessum toga sem eru okkur öllum mjög mikilvægar.“ 

Rektorar háskólanna og fulltrúar þeirra ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, nýjum félagsmálaráðherra, og Hermanni Jónassyni, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.

Netspjall