Skip to main content
27. ágúst 2019

Sköpunarkraftur framhaldsskólanema virkjaður í nýsköpunarhraðli

""

Háskóli Íslands er einn meginbakhjarl Menntamaskínunnar (MeMa), nýsköpunarsamkeppni framhaldsskólanna. Þar tekst ungt fólk á við þær áskoranir framtíðarinnar sem er að finna í málaflokkum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Vísindasmiðja HÍ og Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskólans leggja til sérfræðiþekkingu í svokölluðum Þekkingarspretti sem verður fyrsti áfangi Menntamaskínunnar. Þar kynnast þátttakendur vísindum og fræðum sem tengjast loftslags- og umhverfismálum heimsbyggðarinnar. Leiðbeinendur verða Martin Swift, verkefnisstjóri Vísindasmiðjunnar, Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari, Þorbjörg Sandra Bakke, verkefnisstjóri sjálfbærni- og umhverfismála í Háskóla Íslands, og Jóhannes Bjarki Urbancic, líffræðingur og stundakennari við Háskólann. 

MeMa veitir framhaldsskólanemendum tækifæri til að sannreyna hugmyndir sínar með viðurkenndri aðferðarfræði og er tilgangurinn m.a. að efla skilning ungmenna á möguleikum nýsköpunar til að taka þátt í samfélaginu og leysa vandamál. Með því að halda samkeppni milli framhaldsskóla um lausnaleit í málaflokkum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er hugmyndin að efla samkennd, lausnamiðaða hugsun og samvinnu ungmenna.

MeMa fer nú fram í annað sinn og er markmið verkefnisins er að nýta nýsköpun og frumgerðarsmíð til að efla tæknimenntun og þverfaglega samvinnu í námi. MeMa-hraðallinn spannar alla haustönnina og er einingabær sem lokaverkefni úr framhaldsskólanámi. Unnið er í teymum en hver framhaldsskóli má skipa eitt fimm nemenda teymi.

Þekkingarspretturinn fer fram 9. september í Háskólatorgi og Vísindasmiðjunni í Háskólabíói. Leiðbeinendur í sprettinum verða síðan þátttakendum til halds og traust í vísindalegum og fræðilegum þáttum nýsköpunarverkefnisins allt til enda keppninnar. 

Að baki Menntamaskínunnar standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, FabLab Reykjavík, Reykjavíkurborg, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands. Verkefnið stendur yfir á haustmisseri 2019 og ráðast úrslitin í byrjun desember.  
 

Nemandi við tölvu