Skip to main content
29. apríl 2017

Samstarf um nám og rannsóknir í starfsendurhæfingu

""

Háskóli Íslands og Janus endurhæfing gerðu fyrr í mánuðinum samstarfssamning til þriggja ára sem gerir m.a. nemendum við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands kleift að sækja bæði starfsnám og vinna rannsóknir hjá Janusi. Jafnframt hyggjast aðilarnir tveir vinna saman að stefnumótun um vísindarannsóknir og þróunarverkefni á sviði starfsendurhæfingar.

Samninginn undirrituðu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar, í Háskóla Íslands að viðstöddum fulltrúum Félagsráðgjafardeildar og Janusar.

Félagsráðgjafardeild hefur frá því í fyrrahaust boðið upp á framhaldsnám í starfsendurhæfingu í samvinnu við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Náminu er ætlað að koma til móts við þarfir fyrir sérhæfða þekkingu og færni á sviði starfsendurhæfingar og styrkja fræðilegan grunn, hugmyndafræði og faglega nálgun. Um er að ræða diplómanám sem ætlað er fólki úr ýmsum faggreinum sem vinna við ráðgjöf, meðferð, kennslu og stuðningsþjónustu á sviði starfsendurhæfingar og tengdra greina.

Janus endurhæfing er til húsa að Skúlagötu og hjá fyrirtækinu starfa hátt á fjórða tug sérfræðinga sem vinna að því að aðstoða fólk til að komast á vinnumarkaðinn og fyrirbyggja varanlega örorku. 

Með samningi Háskóla Íslands við Janus endurhæfingu er enn styrkari stoðum skotið undir nám í starfsendurhæfingu enda er ætlunin að nýta í sameiningu sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem samningsaðilar búa yfir. Markmið  samningsins eru enn fremur að stuðla að framgangi vísindarannsókna í starfsendurhæfingu, þróun starfsendurhæfingar og nýsköpunar innan fagsins, styrkja nýliðun félagsráðgjafa innan starfsendurhæfingar og efla almenn tengsl Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Janusar. 

Samkvæmt samningnum getur Félagsráðgjafardeild leitað til Janusar um leiðbeiningu nemenda í starfsþjálfun og mun Janus leitast við að taka á móti einum nema á hverju starfsþjálfunartímabili. Jafnframt hyggjast deildin og Janus vinna saman að því að skapa aðstöðu fyrir rannsóknatengt nám í í starfsendurhæfingu þar sem nemendum gefst kostur á að vinna lokaverkefni sem tengist starfi Janusar. Samningurinn kveður enn fremur á um að starfsmönnum Janusar verði boðin akademísk gestastörf við Félagsráðgjafardeild uppfylli þeir faglegar kröfur þar um. Ætlunin er einnig að vinna að sameiginlegri stefnumótun um vísindi og rannsóknastörf sem tengjast markmiðum samningsins með það í huga að efla akademískt rannsókna- og vísindastarf og styrkja starfsemi Janusar endurhæfingar. 

Fjögurra manna samstarfsnefnd, sem skipuð er tveimur frá fulltrúum frá Félagsráðgjafardeild og tveimur frá Janusi endurhæfingu, hefur umsjón með samningnum sem eins og fyrr segir er til þriggja ára.

Steinunn Hrafnsdóttir, dósent og varadeildarforseti Félagsráðgjafardeildar, Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent og deildarforseti Félagsráðgjafardeildar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,  Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar, Vilmundur Guðnason, forstöðumaður vísinda hjá Janusi, Elín Blöndal, lögfræðingur á rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, og Þórður Kristinsson, ráðgjafi á rektorsskrifstofu.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar