Ritið fjallar um bókmennta- og listgagnrýni
Gagnrýni er þema þriðja heftis Ritsins 2023 sem nú er komið út. Í þemainngangi gestaritstjórans Soffíu Auðar Birgisdóttur segir að á undanförnum áratug hafi íslenskt fjölmiðlaumhverfi breyst svo um munar, prentmiðlum farið ört fækkandi, dagblöð lagt upp laupana en vefmiðlar af ýmsu tagi sótt í sig veðrið. Einn af fylgifiskum þessarar þróunar sé minnkandi umfjöllun um menningu og listir: „Slík umfjöllun þykir ekki ‚arðbær‘ og fær fáa ‚smelli‘ á vefmiðlun. Fagleg gagnrýni á bókmenntir og aðrar listir – tónlist, myndlist og kvikmyndalist – hefur minnkað verulega og ástæða er til að tala um kreppu í því sambandi. Líklega geta þó bókmenntirnar best við unað því þeir fáu prentmiðlar sem eftir lifa leggja sig eftir því að fjalla um bókmenntir á síðustu mánuðum ársins, á þeim tíma sem flestar bækur koma út á Íslandi. Hér er þó um tímabundið fyrirbæri að ræða; blöðin ráða bókmenntagagnrýnendur í verktakavinnu meðan á jólabókaflóðinu stendur en fæst þeirra hafa á sínum snærum fastráðna gagnrýnendur sem sinna bókmennta- og listgagnrýni allt árið.“
Þessi staða var tilefni til þess að efnt var til málstofu á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands með yfirskriftinni „Bókmenntagagnrýni: skiptir hún máli“ og í kjölfar hennar var sent út kall eftir efni í þriðja hefti Ritsins um bókmennta- og listgagnrýni. Í Ritinu birtast að þessu sinni fimm ritrýndar greinar sem tengjast þemanu og ein óritrýnd grein.
Í fyrstu ritrýndu greininni leiðir færeyski bókmenntafræðingurinn Paula Gaard okkur beint inn í umræðuna um kreppu gagnrýninnar undir fyrirsögninni: Bókmenntagagnrýni í Færeyjum: Er kreppa forsenda tilvistar? Þar ræðir hún þær áskoranir sem bókmenntagagnrýnin stendur frammi fyrir í breyttu fjölmiðlalandslagi samtímans. Hún beinir kastljósinu að Færeyjum en margar hliðstæður við Ísland má sjá í umfjöllun hennar, enda um lítil bókmenntakerfi að ræða í báðum löndum. Það kann að koma einhverjum á óvart að Paula telur að kreppuástand í bókmenntagagnrýni, sem og varnarstaða ritdómara, sé ekki nýmæli; þvert á móti telur hún að hér sé á ferðinni eitt aðaleinkenni bókmenntagagnrýninnar og gegni í raun mikilvægu hlutverki í bókmenntalandslaginu. Þorvaldur Kristinsson þýðir grein Paulu úr færeysku.
Í grein Auðar Aðalsteinsdóttur, „Fagurfræði vistkerfanna“, er fjallað um aðra og mun stærri kreppu sem mannkynið stendur frammi fyrir; hamfarir af völdum loftslagsbreytinga af manna völdum og spurt um hlutverk skáldskapar og lista í því samhengi. Auður rekur nokkrar kenningar um vistskáldskap í greininni og gefur dæmi um visthverfan lestur á bæði bókmenntatextum og myndlist. Með hliðsjón af þessum hugmyndum talar hún fyrir því að beina umræðunni um kreppu bókmennta- og listgagnrýni frá áhyggjum af áhuga- og áhrifaleysi hefðbundinna list- og ritdóma í fjölmiðlum en beina í stað sjónum að því hvort vistrýnin geti haft áhrif á fagurfræðileg viðmið okkar og hvað það gæti þýtt fyrir framtíð bókmennta- og listgagnrýni.
Í þriðju þemagreininni, Við hæfi barna?, fjallar Guðrún Steinþórsdóttir um viðtökur og gagnrýni á Gæsahúðar-bækur R. L. Stine og Helga Jónssonar og spyr hvort það sé við hæfi að nota skáldskap til að hræða börn. Jafnframt sýnir hún fram á náin tengsl íslensku bókanna við þær bandarísku og veltir fyrir sér hvort ekki megi tala um hugmyndastuld í því samhengi. Þá ræðir Guðrún einnig tilraunir fólks til að banna Gæsahúðar-bækur Helga árið 2017 og skoðar sérstaklega hvaða ástæður lágu þar að baki.
Grein Æsu Sigurjónsdóttir, Íslensk myndlist í erlendri gagnrýni: Frá Georg Gretor til Gregorys Volk, fjallar um hvernig erlendir listgagnrýnendur – hvort sem þeir eru fæddir í lok nítjándu aldar eða á seinni hluta þeirrar tuttugustu – freistast allaf til að skilgreina íslenska myndlist á forsendum landafræði og náttúru. Æsa rýnir í merkingu hins sértæka í íslenskri myndlist og gerir tilraun til að varpa ljósi á hvernig listgagnrýni hefur mótað myndlist og myndlistarsögu á Íslandi. Það gerir hún með því að beita orðræðugreiningu á skrif nokkurra erlendra listgagnrýnanda um íslenska myndlist.
Í síðustu ritrýndu þemagreininni fáum við áhugaverða innsýn inn í það hversu afdrifaríkar afleiðingar óvægin bókmenntagagnrýni getur haft í för með sér fyrir þann sem fyrir henni verður. Þar fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um Íslandsvísur Guðmundar Magnússonar (1873-1918), sem voru „prentaðar sem handrit“ (þ.e. ekki sem tilbúin ljóðabók) 1903, en viðtökur handritsins voru á þann veg að höfundurinn sá sig knúinn til að taka upp dulnefnið Jón Trausti svo að framtíðarverk hans væru óbundin slæmu orðspori.
Óritrýnda þemagreinin er eftir Svan Má Snorrason og byggir á BA-ritgerð hans í almennri bókmenntafræði frá árinu 2019. Greinin fjallar um bókmenntaþátt Egils Helgasonar, Kiljuna, og áhrifamátt hans á íslenskt bókmenntalíf. Eins og fram kemur í yfirskrift greinarinnar: „…gagnrýni í Kiljunni hefur úrslitaáhrif…“, hefur bókagagnrýnin sem fram fer í sjónvarpsþættinum gríðarleg áhrif á sölu þeirra bóka sem fjallað er um þar, sem og á útlán á bókasöfnum. Svanur Már tók viðtöl við fjölda manns sem tengjast íslensku bókmenntalífi við gerð ritgerðar sinnar og við enn fleiri við vinnslu greinarinnar og niðurstöður hans eru ótvíræðar og koma líklega fáum á óvart.
Að þessu sinni birtast tvær greinar utan þema; önnur á sviði bókmenntafræði en hin á sviði málfræði. Í greininni „Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg af blekkingum“ sýnir Kristján Hrafn Guðmundsson nýja hlið á höfundarverki Steins Steinarrs því þar fjallar hann um hinseginleika og samkynja langanir í völdum ljóðum skáldsins. Þá bregður hann einnig upp svipmynd af Steini og reykvísku samfélagi á fyrri hluta tuttugustu aldar til að draga fram hvernig tíðarandinn og það umhverfi sem skáldið lifði og hrærðist í hafði áhrif á ljóðlist þess. Í skrifum sínum styðst Kristján Hrafn einkum við útgefið efni Steins en horfir þó jafnframt til þeirra breytinga sem skáldið gerði á handritum verka sinna.
Síðasta grein heftisins er eftir Jón Símon Markússon og nefnist: „Um hugrænar forsendur fyrir útvíkunn beygingarvíxla“. Í henni beinir höfundur sjónum að færeyskum kvenkynsnafnorðum með endingunni -ar í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Eins og Jón Símon bendir á eru slíkar myndir stundum skynjaðar sem karlkynsmyndir og fá þá greininn -nir í nefnifalli fleirtölu, en koma þó oftar fyrir með kvenkynsgreininum -nar. Til að varpa ljósi á þessa breytingu skoðar hann sérstaklega hugrænar forsendur fyrir ferlinu og dregur fram hvaða þættir, sem ekki varða málkerfið, skipta máli í því sambandi.
Gestaritstjórar heftisins eru Soffía Auður Birgisdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir en aðalritstjóri þess er Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðumyndin sem prýðir Ritið að þessu sinni er eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Ritið er gefið út í opnu rafrænu formi á ritid.hi.is.