Nýtt rit um réttarstöðu nýmiðla | Háskóli Íslands Skip to main content

Nýtt rit um réttarstöðu nýmiðla

8. maí 2018

Nýverið kom út á vegum Routledge nýtt rit um réttarstöðu nýmiðla; „Human Rights Law and Regulating Freedom of Expression in New Media: Lessons from Nordic Approaches“.

Ritið er afrakstur netverks fræðimanna á sviði fjölmiðlaréttar (Law and Media Network) sem Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur tekið þátt í frá árinu 2015 og styrkt var af Nordplus. Meðal þeirra sem komið hafa að verkefninu af hálfu stofnunarinnar eru prófessorarnir Björg Thorarensen, Eiríkur Jónsson og Oddný Mjöll Arnardóttir auk Maríu Rúnar Bjarnadóttur doktorsnema og Valgerðar Önnu Jóhannsdóttur, aðjunkts í blaða- og fréttamennsku. Hafa fræðimennirnir m.a. fundað tvívegis hér á landi auk þess sem laganemar við HÍ hafa tekið þátt í sumarskóla á vegum netverksins.  

Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og stjórnarformaður Mannréttindastofnunar, er einn fjögurra ritstjóra hins nýja rits. Hinir eru Mart Susi, prófessor við Háskólann í Tallinn, Jukka Viljanen, prófessor við Háskólann í Tampere, og Arturs Kucs, dómari við stjórnlagadómstól Lettlands. Ritið veitir m.a. yfirsýn um réttarstöðu nýmiðla á öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum, auk þess að fjalla á margvíslegan hátt um stöðu slíkra miðla gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Það fjallar um hið marglaga og flókna samband sem er milli Netsins og laga um mannréttindi. Það lítur til þess hvernig Norðurlandaþjóðirnar, sem þekktar eru um allan heim fyrir ríka vernd mannréttinda, hafa nálgast þau lagalegu álitaefni sem eru uppi varðandi nýmiðla og hvað læra megi af því. Ritið á erindi við marga á tímum þar sem fjölmiðlun hefur færst í meira mæli á Netið og mörg helstu álitaefnin á sviði fjölmiðlaréttar varða þær nýju tegundir miðla sem þar hafa orðið til á undanförnum árum.

Róbert R. Spanó, dómari við mannréttindadómstól Evrópu, á eina grein í ritinu sem fjallar um nýlega dómaframkvæmd dómstólsins er lýtur að ábyrgð vefmiðla á athugasemdum sem þar eru settar inn. Þá á Eiríkur Jónsson tvær greinar í ritinu. Önnur þeirra fjallar um stöðu nýmiðla að íslenskum rétti og þau álitaefni sem hér hafa verið uppi um ábyrgð á efni sem birtist á slíkum miðlum. Hin greinin, sem rituð er ásamt Mart Susi, ber heitið „Comparative Analysis of the Nordic/Baltic Approaches and Standards“ og lýtur eins og nafnið gefur til kynna að samanburði á réttarstöðunni hjá einstökum ríkjum á svæðinu og hvernig þau hafa nálgast álitaefni á þessu sviði.

Hér er hægt að sjá nánari upplýsingar um ritið.

Kápa bókar

Netspjall