Ný og öflug Heilbrigðisvísindastofnun fagnar eins árs afmæli | Háskóli Íslands Skip to main content
12. febrúar 2020

Ný og öflug Heilbrigðisvísindastofnun fagnar eins árs afmæli

""

Kynning á afar fjölbreyttum rannsóknum í heilbrigðisvísindum og nýjustu tíðindi af 2019-kórónaveirunni er meðal þess sem verður á boðstólum þegar eins árs afmæli Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands verður fagnað í Læknagarði föstudaginn 14. febrúar kl. 14-16.

Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands tilheyrir Heilbrigðisvísindasviði skólans og er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á sviðinu. Að stofnuninni standa allir vísindamenn Heilbrigðisvísindasviðs, deildir og rannsóknareiningar. „Styrkur Heilbrigðisvísindastofnunar felst í auknum gæðum og samlegðaráhrifum af samstarfi starfsmanna, sameiginlegri uppbyggingu innviða, svo sem rannsóknastofa og aðstöðu, stuðningi við styrkjasókn í erlenda og innlenda sjóði og umsjón með bókhaldi og skýrslum til rannsóknasjóða. Með samnýtingu innviða og öflugri uppbyggingu þeirra höfum við þegar og munum áfram efla þjónustu og stuðning við rannsakendur,“ segir Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs um stofnunina.    

Fjölbreytt þjónusta

Á því eina ári sem liðið er síðan stofnunin var sett á laggirnar hefur tekist að efla ýmsa þjónustu innan sviðsins. „En auðvitað á þetta eins árs afmælisbarn enn töluvert í land og mun leita eftir styrkjum og stoð úti í samfélaginu,“ bendir Inga á. Hjá stofnuninni getur starfsfólk t.d. leitað ráðgjafar um styrkjamöguleika og aðstoð við umsóknir um styrki, fengið aðstoð við tölfræðivinnslu rannsókna og ráðgjöf við gerð og fyrirlögn spurningalista. Þá er unnið að eflingu framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum innan Heilbrigðisvísindastofnunar og þar verður einnig að finna nýja Móttöku fyrir klínsískar rannsóknir auk þess sem samstarf er við Landspítala um Klínískt rannóknasetur og Heilbrigðisvísindabókasafn. 

Vísindamenn innan Heilbrigðisvísindasviðs hafa á undanförnum árum og misserum aflað stórra rannsóknarstyrkja til viðamikilla og metnaðarfullra rannsókna í heilbrigðisvísindum sem allar hafa það að markmiði að bæta líf bæði Íslendinga og fólks víða um heim. Inga segir það skipta miklu máli fyrir Íslendinga að eiga rannsóknaháskóla í fremstu röð sem láti mikið að sér kveða í rannsóknum í heilbrigðisvísindum. „Þetta skiptir miklu máli fyrir nýsköpun í þjónustu og fyrir atvinnulíf auk þess sem góðar aðstæður til rannsókna eru nauðsynlegar til að geta haldið uppi góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu í landinu. Þá er það skilyrði fyrir því að laða að og halda góðu starfsfólki. Öflug vísindasamfélög víða um heim leggja mikið upp úr því að styðja við heilbrigðisvísindin,“ bendir Inga á.

Hjá Heilbrigðisvísindastofnun getur starfsfólk t.d. leitað ráðgjafar um styrkjamöguleika og aðstoð við umsóknir um styrki, fengið aðstoð við tölfræðivinnslu rannsókna og ráðgjöf við gerð og fyrirlögn spurningalista. Þá er unnið að eflingu framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum innan Heilbrigðisvísindastofnunar og þar verður einnig að finna nýja Móttöku fyrir klínsískar rannsóknir auk þess sem samstarf er við Landspítala um Klínískt rannóknasetur og Heilbrigðisvísindabókasafn. 

Ný húsakynni fyrir heilbrigðisvísindin þola enga bið

Til þess að efla rannsóknirnar enn frekar þarf hins vegar að huga að umgjörð vísindastarfsins að sögn Ingu. „Það þarf að byggja yfir heilbrigðisvísindin eins og unnið er að nú og það þolir í raun enga bið,“ segir Inga og vísar í hús Heilbrigðisvísindasviðs sem rísa mun á uppbyggingarsvæði Nýs Landspítala vestan Læknagarðs. „Heilbrigðisvísindagarðar þurfa að rísa en auk nýja hússins munu Læknagarður og Eirberg áfram gegna mikilvægu hlutverki. Heilbrigðisvísindasjóður, sem nefndur er í heilbrigðisstefnu stjórnvalda, er einnig nauðsynlegur fyrir Ísland til þess að við missum ekki þau tækifæri út úr höndunum sem öflugar rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði veita.“

Á afmælisviðburði Heilbrigðisvísindastofnunar á föstudag gefst gestum tækifæri til að skyggnast inn í heim heilbrigðisvísindanna og rannsókna á sviðinu. „Rektor mun ávarpa afmælisgesti og síðan munum við kynna mismunandi rannsóknaraðferðir heilbrigðisvísinda. Það eru annars vegar votrannsóknir eða „týpíska rannsóknastofan“ eins og við sjáum hana oft fyrir okkur, og hins vegar það sem við höfum kallað þurrrannsóknir sem eru faraldsfræðirannsóknir, klínískar rannsóknir og eigindlegar rannsóknir. Dæmi um mikilvægar rannsóknir fylgja hverri kynningu. Í lok dagskrár munum við svo fá að heyra það nýjasta um 2019-koronaveiruna og mögulegan heimsfaraldur,“ segir Inga og undirstrikar að afmælið sé opið öllum áhugasömum.

Metnaðarfull áform um framtíð Heilbrigðisvísindastofnunar

Þótt ýmislegt hafi áunnist á því eina ári sem Heilbrigðisvísindastofnun hefur verið starfrækt eru metnaðarfullar áætlanir um frekari uppbyggingu. Þannig er stefnt er að því að ný móttaka í Læknagarði fyrir klínískar rannsóknir og viðtöl verði tekin í notkun í náinni framtíð. Einnig er stefnt að sérhæfðri aðstoð við uppsetningu og vistun rannsóknargagna fyrir úrvinnslu og sömuleiðis öflugri þjónustu sem tengist úrvinnslu rannsókna á heilbrigðisupplýsingum og persónuvernd. „Við viljum einnig styðja betur við nýsköpun og samfélagslega þjónustu starfsmanna og stúdenta í heilbrigðisvísindum en með því stuðlum við að því að fræðileg þekking og niðurstöður rannsókna verði enn betur nýttar til hagsbóta fyrir samfélagið,“ segir Inga að endingu.

Dagskrá afmælis Heilbrigðisvísindastofnunar má sjá á vef Háskólans  

Inga Þórsdóttir