Skip to main content
6. apríl 2022

Ný námsleið í geðhjúkrun svarar ákalli samfélagsins

Ný námsleið í geðhjúkrun svarar ákalli samfélagsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það er orðið brýnt að fá til starfa sérmenntaða geðhjúkrunarfræðinga eða sérfræðinga í geðhjúkrun bæði á sjúkrahús, heilsugæslu, heimahjúkrun og velferðarþjónustu. Geðhjúkrunarfræðingar hafa einstaka þekkingu og klíníska nálgun sem brúar bilið milli ólíkra fagstétta innan geðheilbrigðisþjónustunnar og eru því ómissandi hlekkur í hinu þverfaglega teymi,“ segir Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ. Hún hefur setið í undirbúningshópi vegna nýrrar klínskrar meistaranámsleiðar í geðhjúkrun ásamt Gísla Kort Kristóferssyni, dósent við Heilbrigðisvísindasvið HA, Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, dósent við HÍ og gestadósent við HA, og Helgu Sif Friðjónsdóttur, sérfræðingi í geðhjúkrun á Landspítala. Námsleiðin verður í boði við Háskóla Íslands frá og með næsta hausti og námið er launað að hluta.

Umrætt meistaranám í geðhjúkrun er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, geðþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. „Samstarf HA, HÍ og geðþjónustu Landspítala felur í sér að háskólarnir í sameiningu bjóða upp á fræðilega undirstöðu og nauðsynlega sérhæfingu og mun geðþjónusta Landspítala í samvinnu við báða háskólana sinna klínísku sérnámi. Klínísk þjálfun á vettvangi verður á geðþjónustu Landspítala, BUGL, Sjúkrahúsinu á Akureyri, ásamt geðheilsuteymum í heilsugæslu og velferðarþjónustu ásamt öðrum heilbrigðisstofnunum, s.s. Reykjalundi,“ segir Gísli. 

Í takt við geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda

Aðspurð hvers vegna ákveðið hafi verið að setja námsleiðina á fót bendir Eydís á að geðheilbrigðisstefna stjórnvalda frá árinu 2016 kveði á um eflingu og þróun geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. „Meginmarkmið hennar er aukin vellíðan og bætt geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu. Þessi stefna kallar á aukna menntun heilbrigðisstarfsmanna,“ segir hún enn fremur.

Helga bætir við að auk þess hafi komið ákall um aukna þjálfun og menntun hjúkrunarfræðinga til að taka þátt í að veita geðheilbrigðisþjónustu, bæði í nærumhverfi notandans og á sjúkrahúsum landsins. „Árið 2017 var birt skýrsla um framlag hjúkrunarfræðinga til eflingar geðheilbrigðisþjónustu á landinu. Ein af helstu niðurstöðum þeirrar skýrslu var að mikilvægt væri að veita HÍ og HA aukið fjármagn til að byggja upp sérfræðimenntun í geðhjúkrun,“ segir Helga en fjórmenningarnir hafa ásamt samstarfsfólki innan HÍ, HA og Landspítala unnið að uppbyggingu námsins síðasta eina og hálfa árið.

„Viðfangsefnin eru og verða ærin til framtíðar í geðheilbrigðismálum og munu hjúkrunarfræðingar með sérmenntun í geðhjúkrun, og þá sérstaklega þeir sem eru sérfræðingar í geðhjúkrun, gegna veigamiklu hlutverki í uppbyggingu geðheilsuteyma á landsbyggðinni þar sem skóinn kreppir mest í dag.“

Fyrra námsár á 80% launum

Í samtali við undirbúningshópinn kemur fram að við uppbyggingu meistaranámsins hafi verið horft til kennslu í framhaldsnámi í geðhjúkrun í Bandaríkjunum. Þar er einna mest reynsla af slíku í heiminum og naut undirbúningshópurinn m.a. ráðgjafar dr. Merrie Kaas, prófessor við University of Minnesota, við þróun námsleiðarinnar. Markhópur námsins eru að sögn þeirra  hjúkrunarfræðingar sem hafa áhuga á málefnum fólks með geðrænar áskoranir af ýmsum toga og vilja auka færni sína og víkka ábyrgðarsvið sitt í þjónustu við þennan skjólstæðingahóp.

Meistaranámið er 120 ECTS-einingar sem þýðir að við eðlilegar aðstæður ljúka nemendur því á fjórum misserum. Fjöldatakmörkun er í námið og eru 12 nemendur teknir inn annað hvert ár. Fyrra námsárið er launað með 80% starfshlutfalli á annaðhvort Landspítala (tíu stöður) eða Sjúkrahúsinu á Akureyri (2 stöður). „Í náminu verður sérstök áhersla lögð á mat ólíkra geðrænna áskorana og gagnreyndra meðferðanálgana í geðhjúkrun. Þá er einnig sérstök áhersla á að styrkja nemendur sem sjálfstæða meðferðaraðila og undirbúa fyrir þverfaglega teymisvinnu ásamt því að þekkja skipulag geðheilbrigðisþjónustunnar og hlutverk geðhjúkrunar innan hennar,“ segja Jóhanna aðspurð um sérstöðu námsins. 

Viðfangsefnin ærin og mikil þörf á sérfræðingum í geðhjúkrun

Geðheilbrigðismál hafa sannarlega verið í brennidepli í samfélaginu síðustu ár og kallað hefur verið eftir aukinni þjónustu í málaflokknum um allt land. „Með þessari nýju námsleið er m.a. verið að bregðast við þessu ákalli og bjóða hjúkrunarfræðingum, sem þegar starfa eða vilja hefja störf t.d. á geðdeildum sjúkrahúsa, í geðheilsuteymum heilsugæslu eða skaðaminnkandi úrræðum, sérfræðimenntun til að takast á við þær fjölþættu áskoranir sem finna má innan geðheilbrigðiskerfisins,“ segir Gísli.

„Viðfangsefnin eru og verða ærin til framtíðar í geðheilbrigðismálum og munu hjúkrunarfræðingar með sérmenntun í geðhjúkrun, og þá sérstaklega þeir sem eru sérfræðingar í geðhjúkrun, gegna veigamiklu hlutverki í uppbyggingu geðheilsuteyma á landsbyggðinni þar sem skóinn kreppir mest í dag. Heildrænt geðheilsumat, stuðningur vegna geðlyfjameðferða og gagnreyndar samtalsmeðferðir eru allt þættir sem mikilvægt er að efla til að auka gæði og framboð geðþjónustu á Íslandi í nærumhverfi notenda og aðstandenda þeirra,“ bætir Eydís við.

Náminu lýkur með sameiginlegri meistaragráðu frá HÍ og HA og gert er ráð fyrir að nemendur geti sótt sér sérfræðileyfi í geðhjúkrun tveimur árum eftir útskrift. Jafnframt veitir námið aðgang að doktorsnámi, kjósi nemendur að sérhæfa sig enn frekar.

„Meginmarkmið meistaranáms í geðhjúkrun er að mennta geðhjúkrunarfræðinga til leiðandi starfa innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu og skólakerfis og mæta þannig þörfum notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og fjölskyldna þeirra í sem víðustu samhengi,“ segir Helga að endingu.

Hægt er að kynna sér námið nánar á vefsíðu þess.

Ný klínísk meistaranámsleið í geðhjúkrun verður í boði frá og með næsta hausti. Hér má sjá undirbúningshópinn, frá vinstri: Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, Helga Sif Friðjónsdóttir, Jóhanna Bernharðsdóttir og Gísli Kort Kristófersson.