Skip to main content
12. nóvember 2021

Ný bók um hreyfiafl ljóss og myrkurs - Darkness: The Dynamics of Darkness in the North

Ný bók um hreyfiafl ljóss og myrkurs - Darkness: The Dynamics of Darkness in the North - á vefsíðu Háskóla Íslands

Land- og ferðamálafræðistofa Háskóla Íslands í samvinnu við International Laboratory for Research on Images of the North, Winter and the Arctic við Háskólann í Québec, Montréal hafa gefið út bókina Darkness: The Dynamics of Darkness in the North. Í bókinni er að finna skrif fjölbreytts hóps fræða- og listafólks um samspil ljóss og myrkurs og áhrif þess á líf fólks á Norðurslóðum. Hún er afrakstur samnefndrar ráðstefnu sem haldin var í Norræna Húsinu í febrúar árið 2015, alþjóðlegu ári ljóssins. Höfundar taka efnið ólíkum tökum, fjallað er um fagurfræði myrkurs, breytilega merkingu þess í gegnum tíðina, hvernig samspil ljóss og myrkurs leikur hlutverk í bókmenntum og kvikmyndum og hvernig myrkur hefur mótað ímynd norðurslóða svo eitthvað sé nefnt.

Kafla bókarinnar rituðu: Judy Spark, Katrín Anna Lund og Gunnar Þór Jóhannesson, Toby Heys, Diego Gomez-Venegas og Barbara Bielitz, Jóhannes Dagsson, Paul Landon, Christiane Lahaie, Batia Boe Stolar og Monique Durand. Inngang rituðu ritstjórar: Daniel Chartier, Katrín Anna Lund og Gunnar Þór Jóhannesson.   

Gunnar Þór, prófessor í ferðamálafræði og einn höfunda bókarinnar, segir að efnistök bókarinnar ættu að höfða til breiðs hóps lesenda sem áhuga hafa á norðurslóðum og sambandi náttúru og samfélags. þau draga fram hvernig samspil ljóss og myrkurs skiptir máli fyrir mótun sjálfsmyndar og menningu fólks á norðurslóðum og gefa dæmi um hvernig ólíkar fræðigreinar nálgast þetta samspil.

Darkness: The Dynamics of Darkness in the North er til sölu í Bóksölu Stúdenta en einnig má nálgast rafræna útgáfu hér