Skip to main content
12. febrúar 2024

Ný bók byggð á doktorsritgerð í bókmenntafræði

Ný bók byggð á doktorsritgerð í bókmenntafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Spectral Memories of Post-Crash Iceland: Memory, Identity and the Haunted Imagination in Contemporary Literature and Art eftir Veru Knútsdóttur, doktor í almennri bókmenntafræði, en bókin byggist á doktorsritgerð Veru sem hún varði við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands í júní 2021.

Í bókinni leiðir Vera saman hugmyndir franska heimspekingsins Jacques Derrida um vofuna og kenningar á sviði menningarlegra minnisfræða (e. cultural memory studies) til að kanna hvernig vofan birtist í bókmenntum og myndlist á árunum eftir efnhagshrunið árið 2008. Af hverju tekur vofan að birtast þá og hvað getur hún sagt okkur um sameiginlegt minni á Íslandi? Efnhagshrunið myndar bakgrunn verkanna sem eru til umræðu og eru til að mynda skáldsögur sem takast á við þögn og eyður fjölskylduarkífsins og glæpasögur sem beita einkennum hrollvekju til að takast á við drauga og niðurbældar minningar í glötuðum og horfnum heimilum efnahagshrunsins. Vofulegt rými (e. spectral space) er áberandi þema í menningarlegum minningum efnahagshrunsins, en höfundur skoðar m.a. hvernig það birtist í myndlistarverkum frá tímabilinu.

Bókin er gefin út hjá Brill útgáfunni, í ritröð sem nefnist Mobilizing Memories og fjallar um tengsl menningarlegra minnisfræða í samtímanum við eftirlendufræði, fjölmenningu og skörun. Ritröðinni er ritstýrt af Hönnu Teichler hjá Goethe Háskólanum í Frankfurt og Rebekah Vince hjá Queen Mary Háskólanum í London.   

Vera Knútsdóttir ver doktorsritgerð sína í Auðarsal í Veröld 2021. Á kápu bókarinnar sem byggir á doktorsritgerðinni er myndlistarverk eftir Unnar Örn Auðarson sem ber titilinn Brotabrot úr afrekasögu óeirðar, og er frá frá árinu 2012. Myndin sjálf er ljósmynd sem rannsóknardeild lögreglunnar tók eftir NATO-mótmælin árið 1949.