Nemendur á forsetalista fá viðurkenningar | Háskóli Íslands Skip to main content

Nemendur á forsetalista fá viðurkenningar

21. júní 2018

Fjórir nemendur í grunnnámi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hljóta verðlaun fyrir frábæran námsárangur á fyrsta ári í viðskiptafræði en þeir voru með hæstu meðaleinkunn að loknum prófum fyrsta árs. Verðlaunahafar komast á forsetalista Viðskiptafræðideildar

Til þess að komast á forsetalista deildarinnar þurfa nemendur að hafa lokið 30 einingum á hvoru misseri, alls 60 einingum á skólaárinu. Eingöngu námskeið, sem tekin eru í dagskóla, eru gjaldgeng og í útreikningi á meðaleinkunn gilda eingöngu próf, sem tekin eru í fyrsta sinn í hverju námskeiði. Einkunnir í sjúkraprófum gilda, en ekki í endurtökuprófum.

Verðlaunahafar eru þau Eva Dögg Kristjánsdóttir, Fjóla Rakel Ólafsdóttir, Hafsteinn Björn Gunnarsson og Sigrún E. Urbancic Tómasdóttir.

Ingi Rúnar Eðvarðsson, forseti Viðskiptafræðideildar, afhenti verðlaunin sem eru í formi peningastyrks en það eru fyrirtækin Inkasso og Olís sem styrktu nemendur í ár. Forsvarsmenn beggja fyrirtækja, þeir Georg Andersen, forstjóri Inkasso, og Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, voru viðstaddir afhendingu styrkjanna.

Viðskiptafræðideild færir þessum tveimur fyrirtækjum þakkir fyrir styrkina.

Í kjölfar styrkveitingarinnar nefndu bæði Georg og Jón Ólafur hversu mikilvægt það væri fyrir fyrirtæki að halda góðum tengslum við helstu menntastofnanir landsins og með styrkjunum vildu Olís og Inkasso sýna í verki að þau hvettu nemendur áfram til góðs árangurs.

Viðskiptafræðideild óskar nemendum innilega til hamingju með árangurinn.

Fulltrúar Inkasso og Olís ásamt nemendum og deildarforseta Viðskiptafræðideildar
Bjarni Frímann og Auður Hermannsdóttir fulltrúar grunnnámsnefndar ásamt styrkþegum
Jón Ólafur Halldórsson forstjóri Olís og Georg Andersen forstjóri Inkasso

Netspjall