Skip to main content
7. júní 2019

Mikil aðsókn í kennaranám í Háskóla Íslands

Hartnær 45 prósenta aukning milli ára í grunnskólakennaranám

Umsóknum í grunnskólakennaranám fjölgar um fjörtíu og fimm prósent milli ára. Þá fjölgaði umsóknum í meistaranám í leikskólafræðum um 25%. Þetta er sérlega ánægjulegt þar sem þjóðarátak hefur staðið yfir til að laða fólk í kennaranám hérlendis. Átakið hefur verið stutt af Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem hefur sagt að kennarar gegni mikilvægasta starfinu í samfélaginu.

„Það er veruleg ánægjulegt að sjá þessa auknu aðsókn í þetta mikilvæga nám, sérstaklega í ljósi þess átaks sem staðið hefur yfir með stjórnvöldum varðandi það að laða fólk í kennaranám. Við hefðum að óbreyttu horft fram á kennaraskort hérlendis á næstu árum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Það er líka mjög ánægjulegt að sjá að umsóknum fjölgar í heildina umtalsvert í Háskóla Íslands.“

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs tekur í svipaðan streng. „Það er gríðarlega ánægulegt að sjá þessa aukningu í kennaranám og blæs okkur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands mikinn eldmóð í brjóst. Ég er handviss um að þessa sókn megi rekja til mikillar samstöðu í samfélaginu um að efla starfsumhverfi skóla og hefja kennarastarfið til þeirrar virðingar sem það á skilið,“ segir hún.

Kolbrún þakkar þessa auknu aðsókn einnig sértækum aðgerðum stjórnvalda vegna kennaraskorts sem felast í námsstyrkjum til kennaranema og launuðu starfsnámi á lokaári námsins.

„Góðir kennarar leiða uppbyggingu skóla sem skilar sér á margfaldan hátt til samfélagsins. Því er ákaflega dýrmætt að fleiri einstaklingar sjái hin fjölbreyttu tækifæri og í raun ævintýrin sem felast í því að starfa innan menntakerfisins.“

Hjá Menntavísindasviði er langmest fjölgun í Deild faggreinakennslu en hún er 54% milli ára. Í Deild kennslu- og menntunarfræða er fjölgunin hins vegar 25%.

Í grunnnám í leikskólakennarafræðum er fjöldi umsókna svipaður og í fyrra en rétt er að hafa í huga að frá 2016-2018 fjölgaði umsóknum í leikskólakennaranám um 86%. „Það er hins vegar gríðarlega ánægjulegt að fjórðungsaukning er í umsóknum í meistaranám í leikskólakennarafræði,“ segir Kolbrún. „Margar þjóðir takast á við ýmsar áskoranir í menntakerfinu og ein af þeim áskorunum er vaxandi skortur á kennurum, ekki síst á leikskólum og í grunnskólum. Hér á Íslandi vantar nú þegar til starfa um 1.400 leikskólakennara en um þriðjungur starfsfólks leikskóla eru menntaðir leikskólakennarar.“

Kolbrún segir að leiðbeinendum sem ráðnir séu til kennslu í grunnskólum hafi einnig fjölgað verulega á undanförnum árum og stefni í að ríflega 600 leiðbeinendur starfi við kennslu á næsta skólaári.

„Til að tryggja eðlilega nýliðun í stétt grunnskólakennara þarf að tvö- eða jafnvel þrefalda fjölda útskrifaðra nema,“ segir forseti Menntavísindasviðs.

Jón Atli rektor Háskóla Íslands segir það einnig afar jákvætt að í heildina fjölgi umsóknum umtalsvert í Háskóla Íslands en fyrstu tölur sýni um þrettán prósenta fjölgun milli ára. „Verið er að greina umsóknartölurnar eftir ákveðnum námsleiðum, deildum og fræðasviðum og verða heildarumsóknartölur kynntar strax eftir helgi.“

Háskóli Íslands, Stakkahlíð