Skip to main content
20. febrúar 2024

Málvísindi, tungumálakennsla, bókmenntir og menning í Milli mála

Málvísindi, tungumálakennsla, bókmenntir og menning í Milli mála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýtt hefti af ritinu Milli mála – tímarit um erlend tungumál og menningu hefur verið gefið út í ristjórn Geirs Þórarins Þórarinssonar, aðjunkts í klassískum málum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Þórhildar Oddsdóttur, aðjunkts í dönsku við sömu deild. Að þessu sinni eru birtar sex ritrýndar greinar um málvísindi, tungumálakennslu, bókmenntir og menningu, auk einnar óritrýndrar greinar (sem er þýdd úr dönsku), og tveggja þýddra smásagna ásamt kynningu á höfundi þeirra. Þrjár fyrstu greinarnar eru á íslensku. Í fyrstu greininni fylgja þær Erla Erlendsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir eftir tveimur greinum um orðasambönd í íslensku, spænsku og þýsku sem birtust í 13. og 14. árgangi ritsins. Að þessu sinni fjalla þær um föst orðasambönd sem endurspegla menningu, staðhætti og sögu í íslensku, spænsku og þýsku.

Ingunn Hreinberg Indriðadóttir fjallar um barnabók, sem samin var á ensku skordýramáli og þýdd á íslenskt skordýramál. Jafnframt gerir hún grein fyrir tilbúnum tungumálum og bullmálum, tilurð þeirra og uppbyggingu. Grein hennar nefnist „Es þak glaðaspraða?“ og eru þar m.a. tekin dæmi af uppbyggingu og málfræði þessa nýja tungumáls í samanburði við raunveruleg/þekkt tungumál. Grein Katelin Marit Parsons, „Svar við bréfi Fríðu: Skáldkonan Arnfríður Sigurgeirsdóttir og frænkan í vestrinu,“ fjallar um stöðu (tveggja) kvenna á dögum Vesturferða – þeirra sem fóru og þeirra sem fóru hvergi – sem og möguleikum kvenna til að koma skáldskap sínum á framfæri. Lara Hoffmann, Markus Meckl og Yvonne Höller fjalla á ensku um forspár tengdar framförum í máltileinkun og misjafna ánægju fullorðinna innflytjenda með námskeið í íslensku. Gerð er grein fyrir rannsóknum höfunda norðan heiða og niðurstöðum þeirra. Í grein Þórhildar Oddsdóttur og Brynhildar Önnu Ragnarsdóttur er fjallað á dönsku um rannsókn á því hversu vel íslenskir tíundubekkingar séu líklegir til að skilja orðaforða í texta á sænsku miðað við sama texta á dönsku. Til grundvallar rannsókninni liggur sú fullyrðing að kunnátta í dönsku sé lykill Íslendinga að skandinavísku málunum norsku og sænsku. Marion Lerner ritar á þýsku um Íslandsferð J.C. Poestion árið 1906 og kynni hans af landi og fyrirmennum á þeim tíma. Að baki liggja ítarlegar rannsóknir á dagbókum eignaðar honum sem og öðrum handritum sem eftir hann liggja. Þá er í heftinu þýðing á áður birtri grein eftir Bergþóru Kristjánsdóttur um kennslu og kynningu á skandinavískum málum á Norðurlöndum í anda Helsinkisáttmálans. Hvar gætir þessa í námskrám landanna og hvaða mynd fá unglingar af Norðurlöndunum út frá því námsefni sem í boði er? Að lokum birtast í heftinu tvær smásagnaþýðingar eftir argentínska rithöfundinn Cristinu Civale. Hólmfríður Garðarsdóttir þýðir og fjallar um Civale í inngangi. Sögurnar sem hér birtast heita Malbec og Bloody Mary og eru báðar úr smásagnasafninu Fylleríssögur.

Milli mála er gefið út í rafrænu formi á millimala.hi.is

Milli mála Milli mála