Skip to main content
15. júní 2022

Loftbrjóstsaðgerðum fækkar hlutfallslega á Íslandi

Loftbrjóstsaðgerðum fækkar hlutfallslega á Íslandi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðgerðum vegna svokallaðs loftbrjósts hefur fækkað töluvert á síðustu áratugum hér á landi samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna Háskóla Íslands og Landspítala sem sagt er frá í Læknablaðinu sem kom út á dögunum. Hún leiðir einnig í ljós að árangur slíkra aðgerða var mjög góður og sjúklingunum farnaðist almennt vel eftir aðgerðina, sem m.a. endurspeglast í lágri tíðni alvarlegra fylgikvilla. Þetta er í fyrsta skipti sem breytingar í tíðni þessara aðgerða eru rannsakaðar hjá heilli þjóð.

Loftbrjóst kallast það þegar gat kemur á lungað og veldur því að það fellur saman. Algengasta orsök þess eru áverkar þar sem brotin rif rjúfa gat á yfirborð lungans en einnig geta litlar blöðrur á lungnatoppum rofnað af sjálfu sér, og kallast það sjálfsprottið loftbrjóst. Síðarnefndu loftbrjóstin eru alengari hjá hávöxnum karlmönnum, ekki síst hjá þeim sem reykja. Algengasta meðferðin er að koma slöngu fyrir í fleiðruholinu og soga upp lungað þannig að gatið á yfirborði þess geti gróið. Hjá sjúklingum með langvarandi loftleka eða endurtekið loftbrjóst er hins vegar gripið til skurðaðgerðar þar sem heftað er fyrir leku lungnablöðrurnar. Jamframt er fleiðran á innanverðu brjóstholinu rispuð með sandpappír til að mynda samvexti sem minnka líkur á því að lungað falli saman. Síðastliðna tvo áratugi hafa þessar aðgerðir verið gerðar á Landspítala með aðstoð brjósholssjár og aðgerðin gerð án þess að opna brjóstholið með millirifjaskurði. 

Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Þórdís Magnadóttir, sérnámslæknir í skurðlækningum á Landspítala, en leiðbeinandi hennar í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta-og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ.

Rannsóknin sem sagt er frá í Læknablaðinu náði til 386 sjúklinga, þar af 78% karla, sem gengust undir 430 aðgerðir vegna loftbrjósts Landspítala á 28 ára tímabili, 1991-2018. Sjúklingaþýðinu var skipt upp í fjögur 7 ára tímabil og þau borin saman. Í ljós kom að árlegt nýgengi aðgerða lækkaði markækt um 2,9% á ári, án þess að breyting hefði orðið á ábendingum eða samsetningu sjúklingahópsins.  Helmingur sjúklinga reykti fram að aðgerð og sást tilhneiging til lægra hlutfalls reykinga án þess að munurinn væri marktækur. Tíðni alvarlegra fylgikvilla var mjög lág (<1%) og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina af.

Rannsóknin sýnir að aðgerðir við loftbrjósti eru örugg meðferð og árangur þeirra á Landspítala á pari við stærri og sérhæfðari lungnaskurðdeildir nágrannalandanna. Frekari rannsóknir með stærra sjúklingaþýði þarf til að staðfesta að fækkun aðgerða megi rekja til minni reykinga hér á landi, en hlutfall fullorðinna sem reykja hefur lækkað úr 28% í aðeins 7% á þeim þremur áratugum sem rannsóknin tók til. Þetta er eitt lægsta reykingahlutfall í heimi og skiptir máli því tengsl reykinga og sjálfsprottins loftbrjósts eru mjög sterk og endurspeglast í þeirri staðreynd að helmingur sjúklijnga með sjálfsprottið loftbrjóst reykir. Áhrif minni reykinga á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, og sérstaklega lungnakrabbameins, vega þó enn þyngra fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og spara íslensku tuga milljarða útjgöld á næstu áratugum. 

Fyrsti höfundur greinarinnar er Þórdís Magnadóttir, sérnámslæknir í skurðlækningum á Landspítala, en leiðbeinandi hennar í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta-og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ.

Greinina í Læknablaðinu má nálgast hér.

Frá loftsbrjóstsaðgerð á Landspítalanum.