Skip to main content
3. júní 2020

Lið úr Haga sigraði í innanhúskeppni Hjólað í vinnuna

Liðið Hagi-RLE UltraCycling kom, sá og sigraði í í innanhúskeppni Háskólans sem haldin var í tengslum við átakið Hjólað í vinnuna í maímánuði. Liðið gerði sér jafnframt lítið fyrir og varð í þriðja sæti í kílómetrakeppni átaksins.

Átakið Hjólað í vinnuna fór fram dagana 6. - 26. maí í ár en markmið þess er að hvetja fólk til þess að nota umhverfisvænan samgöngumáta á leið til vinnu. 

Líkt og í fyrra skráði Háskóli Íslands sig til leiks og efndi jafnframt til sérstakrar keppni milli liða innan skólans en 3-10 keppendur gátu verið í hverju liði. Alls tóku tæplega 100 starfsmenn skólans þátt að þessu sinni í 17 liðum. Þau lögðu samtals að baki um 9.800 kílómetra þær þrjár vikur sem keppnin stóð yfir en það jafngildir rúmlega sjö hringum í kringum landið. Þessi árangur skilaði Háskóla Íslands í fjórða sæti í keppni vinnustaða með fleiri enn 800 starfmenn.

Í innanhússkeppni Háskólans voru veitt verðlaun til þess liðs sem hjólaði hlutfallslega flesta kílómetra í vinnuna miðað við fjölda þátttakenda. Þriggja manna liðið Hagi-RLE UltraCycling reyndist þar í sérflokki en það lagði að baki rúma 1.950 kílómetra þá fjórtán virku daga sem keppnin stóð yfir. Liðið skipa þau Elín Valgerður Magnúsdóttir, Haraldur Halldórsson og Björn Þorgilsson sem öll starfa á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði í Haga. Meðalvegalengd hvers liðsmanns reyndist um 650 kílómetrar og þessi gríðargóði árangur skilaði liðinu í þriðja sæti í kílómetrakeppni Hjólað í vinnuna

Liðið tók við verðlaunum fyrir þennan frábæra árangur á uppskeruhátíð Hjólað í vinnuna í liðinni viku og í þessari viku tók það svo við farandbikar Háskóla Íslands vegna innanhússkeppninnar.

Háskóli Íslands óskar liðsmönnum Hagi-RLE UltraCycling til hamingju með viðurkenninguna og þakkar starfsmönnum góða þátttöku í átakinu í ár.