Skip to main content
27. september 2018

Leitað eftir rödd allra stúdenta í baráttunni

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur opnað fyrir hugmyndasöfnun um herferð meðal allra stúdenta Háskóla Íslands. „Verkefnið kallast Háskólinn okkar,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs, „og snýst það um að færa hagsmunabaráttu stúdenta nær öllum stúdentum Háskóla Íslands. Það eru auðvitað mörg mál sem við getum sett á oddinn í baráttu fyrir bættum hag stúdenta en við viljum mjög gjarnan heyra frá þeim sjálfum um þau málefni sem á að setja í forgang.“

Elísabet segir að Stúdentaráð hafi fjármagn til þess að fara í viðamikla herferð þar sem vakin yrði athygli á sérstöku málefni sem varðar hagsmuni stúdenta og nefnir hún sem dæmi lánasjóðsmál, húsnæðismál eða geðheilbrigðismál. „Þetta eru tillögur um eitthvað af því sem við gætum sett í öndvegi í baráttunni. Í fyrra fór Stúdentaráð í stóra herferð vegna undirfjármögnunar háskólastigsins sem skilaði sér með tveggja milljarða króna aukningu í fjárlögum 2018,“ segir Elísabet. 

Hún segir að Stúdentaráð vilji alls ekki vera einrátt um mikilvæg málefni og þess vegna sé áríðandi að heyra hugmyndir frá nemendum skólans og veita nemendum tækifæri til að ákvarða það sem Stúdentaráð eigi að þrýsta sérstaklega á.

„Stúdentar munu einnig ákveða hvaða herferð þetta verður með kosningu í lok hugmyndasöfnunar sem hefst 8. október. Meginmarkmið okkar er að valdefla stúdenta og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku, tengja stúdenta saman til að rökræða og forgangsraða málefnum okkar til þess að bæta háskólann okkar og umhverfi. Með þessu vonast Stúdentaráð sömuleiðis til að standa fyrir raunverulegri og aðgengilegri hagsmunabaráttu sem vonandi allir stúdentar geta staðið á bak við.“

Inni á sérstakri vefslóð er unnt að nálgast samráðsvettvang Stúdentaráðs þar sem öllum er frjálst að senda inn hugmyndir til 1. október 2018. Í kjölfar þess mun verða opnað fyrir kosningu meðal allra stúdenta á sama vefsvæði þann 8. október þar sem stúdentar geta kosið það málefni sem þeir vilja að Stúdentaráð beiti sér sérstaklega fyrir í formi herferðar.

Elísabet segir að Stúdentaráð sé skipað 27 fulltrúum stúdenta af öllum sviðum Háskólans. „Stúdentaráð starfrækir skrifstofu sem er staðsett á þriðju hæð Háskólatorgs og er opin alla virka daga frá 9 til 17. Stúdentaráð var stofnað 1920 og hefur náð miklum árangri við að bæta kjör stúdenta.“

Elísabet Brynjarsdóttir