Skip to main content
7. nóvember 2018

LEGO-keppni, geimvísindi og fjölskylduskemmtun á laugardag

""

Um tvö hundruð grunnskólanemendur víðs vegar af landinu taka þátt í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fer í Háskólabíói laugardaginn 10. nóvember. Að þessu sinni eru 22 lið frá 18 grunnskólum skráð til þátttöku og spreyta þau sig á forritun, rannsóknarverkefni, teymisvinnu og vélmennakappleik. Liðin hafa unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mæta þrautþjálfuð til leiks en sigurliðinu gefst kostur á að taka þátt í norrænni keppni FIRST LEGO í byrjun desember. Á keppnisdeginum verður jafnframt fjölbreytt skemmtun fyrir alla fjölskylduna í anddyri Háskólabíós og opið verður í Vísindasmiðjunni.

Keppendur um allt land eru nú að leggja lokahönd á undirbúning fyrir keppnina er hún skiptist í fjóra meginhluta. Í fyrsta lagi forrita keppendur vélmenni úr tölvustýrðu Legói sem ætlað er að leysa tiltekna þraut sem tengist þema ársins sem að þessu sinni er himingeimurinn. Þá eiga keppendur að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni sem einnig tengist geimnum. Enn fremur þurfa keppnisliðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrita vélmennin og síðast en ekki síst horfir dómnefnd til liðsheildar. Þátttaka í keppninni reynir því á margs konar hæfni og þekkingu grunnskólanemendanna.

Markmiðið með First Lego League hönnunar- og tæknikeppninni er að efla færni ungs fólks á sviði tækni og vísinda með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun og skapandi hugsun, byggja upp sjálfstraust og efla samskiptahæfni. 

Háskóli Íslands hefur staðið fyrir keppninni í rúman áratug.

Hefð er fyrir því að blása til fjölskylduhátíðar í anddyri Háskólabíós á keppnisdaginn og þar verður margt í boði fyrir alla aldurshópa, auðvitað með sérstakri áherslu á himingeiminn. Gestir geta meðal annars kynnt sér himintungl, geimferðir og tungllendingar. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness verður einnig á staðnum með stjarnfræðileg geimvísindi.

Fyrirtækið Krumma býður gestum á öllum aldri að glíma við skemmtilegar Legóþrautir og kynnast spennandi nýjungum, kappaksturbílll Team Spark verður til sýnis og Vísindasmiðjan sívinsæla verður opin. 

Aðgangseyrir er enginn og eru allir hjartanlega velkomnir, opið er kl. 12.30 til 15.30.

Keppninni verður streymt á Facebook

Frá LEGO-keppni 2017