Skip to main content
2. febrúar 2018

Læra um siðferðileg álitaefni í gegnum Laxdælu

""

„Menntun er margslungið hugtak, á því eru bæði tæknilegar og siðfræðilegar hliðar auk þess sem það spannar í senn sálrænar og félagslegar víddir hverrar manneskju. Páll Skúlason heimspekingur orðaði það eitt sinn svo að það að menntast fæli í sér að verða meira maður, ekki meiri maður. Með menntun vaxa, þroskast og dafna þeir eiginleikar sem gera okkur mennsk. Menntun, í þessum skilningi er ræktun mennskunnar,“ segir Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ólafur Páll hefur í gegnum tíðina fjallað um lýðræði og réttlæti í tengslum við menntun út frá ólíkum sjónarhornum, um skóla án aðgreiningar og menntastefnu. Um þessar mundir vinnur hann að einstakri rannsókn þar sem skoðaðar eru siðferðilegar hliðar þess að vera manneskja og hvernig styðja megi börn og ungmenni í því að verða heilsteyptari siðferðisverur. Auk Ólafs Páls vinna Atli Harðarson dósent, Róbert Jack aðjunkt, og Þóra Björg Sigurðardóttir doktorsnemi, auk fimm kennara á Akureyri og Vestfjörðum að rannsókninni sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Íslendingasögurnar hafa lengi verið viðfangsefni í skólum en verkefni rannsóknarhópsins felst í því að nýta þetta viðfangsefni með öðrum hætti en áður hefur verið gert, þ.e. að nota sögurnar til að þjálfa nemendur í siðferðilegri samræðu. Fyrir valinu varð bókin Laxdæla en hún virðist höfða vel til nemenda á unglingastigi í grunnskólum.

„Laxdæla er mikill fjársjóður. Hún er uppfull af áleitnum spurningum um siðferði og samskipti. Í öllu falli hafa þeir nemendur sem við höfum rætt við tekið sögunni vel. Við trúum því að það sé meðal annars vegna þess að kennararnir hafa lesið söguna með þeim og haft ýmis siðferðileg atriði í forgrunni. Þessi atriði eru algerlega sambærileg við það sem brennur á ungmennum í dag. Við nálgumst viðfangsefnið á praktískan hátt með því að kanna hvernig samræða um bókmenntatexta geti glætt skilning nemenda á hugtökum sem skipta máli fyrir siðferði fólks. Með þessu móti vonumst við til að nemendur öðlist betri skilning á siðferðilegum hugtökum um leið og þeir fá þjálfun í að rökræða um siðferðileg álitamál.“

Ólafur Páll Jónsson

Ólafur Páll Jónsson er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og hélt síðan áfram heimspekinámi og lauk meistaragráðu frá University of Calgary og doktorsgráðu frá MIT í Bandaríkjunum. Áður en Ólafur Páll hóf störf við Menntavísindasvið var hann stundakennari við heimspekiskor Háskóla Íslands auk þess að vinna á Vísindavefnum. Hann hefur gefið út fjórar bækur um heimspeki og eina barnabók auk þess sem hann skrifaði, ásamt Þóru Björgu Sigurðardóttur, leshefti um lýðræði og mannréttindi sem grunnþátt í allri menntun í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011.

Að sögn Ólafs er of snemmt að segja til um hvað rannsóknin muni leiða í ljós. „Við getum enn sem komið er ekki staðhæft neitt um niðurstöður en við sjáum ákveðnar vísbendingar um að skilningur barna á siðferðilegum hugtökum eykst við að lesa og ræða sögu eins og Laxdælu og láta hin siðferðilegu álitamál frekar en t.d. söguþráð eða staðhætti vera í forgrunni.“

Ef nemendur öðlast betri siðferðisvitund og verða hæfari til að rökræða um siðferðileg efni, þá er ótvíræður ávinningur af rannsókn sem þessari. „Eftir hrunið haustið 2008 var meðal annars sterkt ákall í samfélaginu um að styrkja þyrfti siðferðilegar undirstöður samfélagsins og í því sambandi var ekki síst horft til skólanna sem gerenda í því verkefni. Líta má á rannsókn okkar sem viðbrögð við þessu ákalli. En þessi viðbrögð felast ekki í því að koma með eitthvað nýtt og setja það inn í skólana heldur að gera áfram það sem kennarar hafa lengi gert en með öðrum hætti.“

Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag

Fréttin er liður í myndbandsröð um rannsakendur á Menntavísindasviði sem ber yfirskriftina Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag.

Myndböndin eru aðgengileg á YouTube-rás Menntavísindasviðs.

„Laxdæla er mikill fjársjóður. Hún er uppfull af áleitnum spurningum um siðferði og samskipti. Í öllu falli hafa þeir nemendur sem við höfum rætt við tekið sögunni vel. Við trúum því að það sé meðal annars vegna þess að kennararnir hafa lesið söguna með þeim og haft ýmis siðferðileg atriði í forgrunni. Þessi atriði eru algerlega sambærileg við það sem brennur á ungmennum í dag,“segir Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.