Ísland verði fyrst að innleiða tækni og nýjungar | Háskóli Íslands Skip to main content

Ísland verði fyrst að innleiða tækni og nýjungar

2. nóvember 2018
""

„Áskorunin fyrir Íslendinga er að hafa hugrekki til að sameina nýsköpun og smæð þjóðarinnar. Þannig getum við unnið með leiðandi aðilum um allan heim við að innleiða nýjungar og tækni sem eru jafnvel ekki enn komnar á markað. Þannig getum við og heimurinn skilið hvaða áhrif ný tækni, eins og t.d. sjálfkeyrandi bílar, hafa á framtíðarþjóðfélagið. Íslendingar geta þannig orðið fremstir í nýrri tækni þar sem þeir taka hana upp fyrstir og ná þannig gríðarlegu forskoti á aðra.“

Þetta sagði Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi hjá Google, í erindi sínu í Háskóla Íslands í hádeginu þar sem hann beindi augum að nýsköpun og framtíð Íslands. Erindi hans var í röðinni Hagnýtum hugvitið. Húsfyllir var í Hátíðasal og svaraði Guðmundur fjölda spurninga úr sal eftir að hann hafði ávarpað fundargesti.

„Við erum í raun að tala um að fá fremstu tæknifyrirtæki og stofnanir í heiminum til að þróa framtíðarþjóðfélagið hérlendis, við yrðum þá í raun í fremstu röð í krafti þess.“

Guðmundur sagði auk þess að stjórnvöld þyrftu að auka stöðugleika til að tryggja  öflugt umhverfi fyrir nýsköpun. Þau þyrftu einnig að styðja innviði eins og menntakerfið til að tryggja að grunnsóknir yrðu öflugar því þær sái fræjum út í atvinnulífið.

Myndir frá erindi Guðmundar

Unnið fyrir bæði Apple og Google

Frumkvöðullinn Guðmundur Hafsteinsson hefur gríðarlega reynslu af nýsköpun þrátt fyrir ungan aldur en hann er yfirmaður vöruþróunar hjá Google og var nýlega skipaður formaður í stýrihóp um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Guðmundur, sem er fæddur árið 1975, hefur starfað hjá Google frá 2014 og leitt starf við þróun margra af helstu tækninýjungum fyrirtækisins. Apple og Google skipa nú tvö efstu sætin á listum flestra matsfyrirtækja yfir verðmætustu vörumerki veraldar. Þar var gosdrykkjaframleiðandinn Coca-Cola lengi vel en upplýsingatæknifyrirtækin hafa fyrir allnokkru tekið afgerandi forskot.

Guðmundur Hafsteinsson er með B.Sc.-gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá MIT í Bandaríkjunum, sem er einn virtasti háskóli veraldar.  Áður en hann hóf störf hjá Google núna síðast vann hann við þróun Siri hjá Apple, en í undanfara þess vann hann við þróun Google Maps á farsíma og við þróun raddleitar Google. Hann hefur einnig stofnað fyrirtæki á sviði tækniþróunar og nýjunga sem leiddi af sér þau nýsköpunarstörf sem hann hefur unnið við æ síðan.

Háskólinn í fremstu röð fyrir verðandi frumkvöðla

Erindi Guðmundar í dag var í nýrri röð Háskóla Íslands um nýsköpun og fer vel á því að Háskólinn beini sjónum að nýsköpun með þessum hætti.  Á dögunum var nefnilega tilkynnt að Háskólinn væri í hópi fremstu háskóla í Evrópu fyrir verðandi frumkvöðla og þá sem hyggjast leggja fyrir sig nýsköpunarstarf. Danska sprotamiðlunarfyrirtækið Valuer birti þessa niðurstöðu.

Á lista fyrirtækisins eru alls 45 skólar, einn frá hverju Evrópulandi, sem taldir eru bjóða upp á besta grunnnámið í viðskiptafræði í sínu landi og leggja bæði áherslu á fræðilega og hagnýta þekkingu í náminu. Undirstaðan er sterkur grunnur í viðskiptafræði fyrir fjölþjóðlegt og síkvikt viðskiptalíf en jafnframt áhersla á nýsköpun og frumkvöðlahugsun.

Í nýju fundaröðinni „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“ verður stefnt saman virtum rannsakendum úr Háskóla Íslands, fagfólki og frumkvöðlum víðar úr samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun í íslensku og alþjóðlegu samfélagi.  Þau næstu sem tala í röðinni á eftir Guðmundi Hafsteinssyni eru frumkvöðlarnir Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, doktor í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands, og Einar Stefánsson, prófessor í augnlæknisfræði við Háskóla Íslands.  Þau hafa bæði stofnað sprotafyrirtæki og þekkja vel ferðalagið frá hugljómun til verðmætrar afurðar. Einar Stefánsson er margverðlaunaður fyrir störf sín á sviði augnlæknisfræði og Sandra Mjöll hefur líka hlotið ýmis verðlaun fyrir nýsköpun og vann ekki fyrir alls löngu aðalverðlaun Evrópudeildar GWIIN-samtakanna, sem veita viðurkenningu til kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Erindi þeirra Söndru og Einars verður án efa spennandi en það fer fram þann 22. nóvember nk.

Hér má horfa á erindi Guðmundar frá því í hádeginu.

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi hjá Google
Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi hjá Google

Netspjall