Hundruð hafa nýtt Sálfræðiþjónustu háskólanema | Háskóli Íslands Skip to main content

Hundruð hafa nýtt Sálfræðiþjónustu háskólanema

9. apríl 2018
Frá sálfræðitíma

Háskóla Íslands er afar annt um velferð nemenda meðan á námi stendur og vinnur jafnframt að því að búa þá sem best undir þau verkefni sem bíða að námi loknu. Óvíða kristallast þetta betur en í starfi Sálfræðiráðgjafar háskólanema sem starfrækt hefur verið frá árinu 2013. Markmið hennar er tvíþætt, að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í klínískum störfum og veita bæði háskólanemum og börnum þeirra sálfræðiþjónustu gegn afar vægu gjaldi.

Gunnar Hrafn Birgisson, doktor og sérfræðingur í klínískri sálfræði, veitir sálfræðiráðgjöfinni forystu. Hann segir starfið hafa gengið vel. „Þjálfunarklíníkin var sett á laggirnar sem tilraunaverkefni til þriggja ára og eftir þann tíma var einróma samstaða um að halda starfseminni áfram. Það fer vel saman að sálfræðinemarnir þjálfist í faginu og að skjólstæðingar þeirra nái góðum árangri með sín mál,“ segir hann.

Á þeim fimm skólaárum sem sálfræðiþjónustan hefur verið í boði hafa um 100 sálfræðinemar hlotið þar starfsþálfun. „Málin sem við höfum unnið með eru orðin hátt á fjórða hundrað en skjólstæðingarnir eru fleiri því málin varða stundum pör eða foreldra með börn,“ bendir Gunnar á og bætir við að aðsóknin hafi aukist ár frá ári.

Vandamál nemenda eru af ýmsum toga. „Við sjáum allt frá vægu yfir í mjög alvarlegt þunglyndi. Sömuleiðis vinnum við með margs kyns og misalvarlegan kvíða. Vanlíðan nemenda er oft tengd álagi vegna prófa, fjárhagslegri afkomu, framtíðarmöguleikum eða félagslegum samskiptum. Í öðrum tilvikum tengist vandi fortíðinni, svo sem afleiðingum af áföllum, einelti eða ofbeldi. Við höfum líka fengist við ýmiss konar persónubresti, fíknir, átraskanir og sjálfsvígshugsanir,“ segir Gunnar.

Hann bætir við að einnig sé unnið með ýmsa kvilla eins og frestanahneigð, fullkomnunaráráttu, lágt sjálfsmat, svefntruflanir, félagsfælni og fleira. „Við kennum nemendum að lesa í erfiðar tilfinningar, t.d. skömm, sektarkennd, afbrýðisemi og reiði. Þeir læra líka leiðir til að stilla af slíkar tilfinningar eða að nýta sér þær til gagns. Í ýmsum tilvikum aðstoðum við nemendur við að fara í sérhæfða meðferð hjá fagfólki á stofum eða stofnunum,“ segir hann.

Vandi þeirra barna sem leita til sálfræðiráðgjafarinnar er einnig fjölbreyttur og getur t.d. tengst þroskahömlun, tilfinningatruflun, hegðun, uppeldisaðferðum, erjum í fjölskyldu, skorti á félagsfærni og námsörðugleikum.

Bæði innlendir og erlendir stúdentar leita aðstoðar hjá ráðgjöfinni, m.a. fólk sem er komið frá öðrum heimsálfum. „Sumir skjólstæðingar hafa komið frá átakasvæðum og átt langa áfallasögu. Í þessu hefur reynt á skilning sálfræðinemanna á fjölbreytni mannlífsins, m.a. á menningarmun, trúarbrögðum og tungumálum,“ segir Gunnar sem vill efla ráðgjöfina enn frekar í framtíðinni og m.a. bjóða upp á hópmeðferð.

Hægt er að fræðast nánar um Sálfræðiráðgjöf háskólanema á vef Háskóla Íslands.

Greinin birst fyrst í Tímariti Háskóla Íslands 2018

Gunnar Hrafn Birgisson.

Netspjall