Skip to main content
23. ágúst 2022

Hópefli og gleði við móttöku nýnema Menntavísindasviðs

Hópefli og gleði við móttöku nýnema Menntavísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tekið var á móti nýnemum á Menntavísindasviði mánudaginn 22. ágúst með fjölbreyttri dagskrá sem mun halda áfram út vikuna. Þar munu líf, fjör og fræðsla ráða ríkjum.

Nýnemar fengu örstutta kynningu um helstu þjónustu sviðsins og Auður Eir Sigurðardóttir, forseti Sviðsráðs Menntavísindasviðs, kynnti starfsemi ráðsins og nemendafélaganna á Menntavísindasviði, Tuma, Kennó og Vatnsins. Ása Helga Ragnarsdóttir Proppé leiddi svo hópefli ásamt 24 vöskum sjálfboðaliðum úr hópi nemenda á sviðinu og hristi nemendur saman og skapaði skemmtilega stemningu.

Forseti Menntavísindasviðs, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, bauð nemendur velkomna í upphafi móttöku og hér fyrir neðan má lesa ávarp hennar til nýnema: 

„Kæru nýnemar, 

Ég býð ykkur innilega velkomin til náms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands! Frábært að sjá ykkur svona mörg hér í dag. 

Lífið er óvissuferð og lífið er ævintýri. Undanfarin tvö og hálft ár hafa minnt okkur rækilega á hvað mannlegt samfélag er viðkvæmt. Heimsfaraldur, jarðhræringar, eldgos og stríð á vettvangi Evrópu hefur minnt rækilega á að ekkert er sjálfgefið og að grunnstoðir samfélagsins þurfa að vera sterkar. Við megum ekki taka hlutina ekki fyrir gefna, og þetta held ég að við verðum að halda áfram að minna okkur á, detta ekki í sama farið og áður – stefna hugsunarlaust áfram í þessu hraða nútímasamfélagi. 
Það eru því stórar áskoranir sem við þurfum að takast á við, bæði sem samfélag og sem einstaklingar. Þær þjóðir standa sterkast að vígi sem eiga öflug opin og aðgengileg menntakerfi fyrir alla borgara. Við sem hér erum, erum ákaflega heppin að búa á Íslandi, landi sem býr að miklum náttúruauð og þar sem velferð er almenn. Ekki gleyma að í heiminum eru ennþá tugmilljónir barna, milljónir ungs fólks sem hafa ekki aðgang að menntun. Eitt af því sem er og á ávallt að vera sameiginlegt verkefni þjóða er að tryggja réttindi allra að gæðamenntun og viðunandi lífsskilyrði. Þess vegna snýr eitt af heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna einmitt að þessu marki.

Það er líka mjög vel við hæfi að einkunnarorð á nýrri stefnu Háskóla Íslands er betri háskóli- betra samfélag. Eitt af meginmarkmiðum okkar sem störfum hér á Menntavísindasviði er að standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum á sviði menntunar, skapa hagnýta og mikilvæga þekkingu sem skiptir miklu máli til að bæta gæði menntunar, auka aðgengi allra hér á landi að slíkri menntun og tryggja að flestar ef ekki allar manneskjur geti orðið að þeim manneskjum sem þau vilja verða, og geta skapað sér líf, heimili og starfsvettvang þar sem þau njóta sín. 

Menntun er ævilangt ferli – við menntumst ekki í eitt skipti fyrir allt, við manneskjur erum gerðar til þess að læra, og í nútímasamfélagi er sífelld krafa á að við endurnýjum hæfni okkar og þekkingu. Þess vegna starfar fagfólk á sviði menntunar, hvort sem um er að ræða kennarar, tómstunda- og félagsmálafræðingar, uppeldis- og menntunarfræðingar, þroskaþjálfar og íþrótta- og tómstundafræðingar víðsvegar um samfélagið, í skóla- og frístundastarfi, hjá stofnunum og fyrirtækjum, og sinnir menntun, fræðslu, velferð, þjálfun og heilsu og valdeflingu fólks. 

Ég segi valdeflingu vegna þess að menntun snýst ávallt um manneskjur, að styðja við fólk til að eflast, taka þátt í samfélaginu og láta drauma sína rætast. Páll Skúlason heimspekingur sagði eitt sinn:
„Tilgangur námsins er námið sjálft. Þess vegna verða menn aldrei fullnuma í neinni námsgrein, hversu mörgum og góðum prófgráðum þeir ljúka.“

Ég bið ykkur um að hugsa um þessi orð og taka þau með ykkur. Það sem mestu skiptir næstu árin í ykkar lífi er ferlið sjálft, það er hvernig þið nýtið ykkur það tækifæri að vera háskólanemar, kynnast sérfræðingum og kennurum á ólíkum fræðasviðum, kynnist nýjum hugmyndum og aðferðum til að miðla eða þjálfa eða valefla aðra, og ekki síður að kynnast samnemendum ykkar. 

Ef þið lítið í kringum ykkur núna í þessum sal, þá sjáið það ólíka einstaklinga, allskonar fólk, og í hópi þeirra eru einstaklingar sem geta gefið ykkur alveg ótrúlega mikla fjársjóði, svo sem athygli, vináttu félagsskap og stuðning. Ef þið gefið þeim. Þess vegna hve ég ykkur til að hafa frumkvæði að því að tengjast samnemendum ykkar, ekki bíða eftir að einhver tali við þig – tala þú við manneskjuna við hliðina á þér, fyrir framan þig eða fyrir aftan þig.  

Kæru nýnemar, mín von er sú að þið sem nú eruð að hefja háskólanám hér á Menntavísindasviði munið njóta ykkar hér í námi, starfi og leik. Starfsfólk sviðsins leitast við að aðstoða ykkur eftir fremsta megni – en þið megið ekki láta ykkar kyrrt eftir liggja. Kynnið ykkur vel allar upplýsingar á heimasíðu háskólans og á heimasíðu sviðsins. Skipuleggið ykkar nám og takið virkan þátt í námssamfélaginu. Þá mun ykkur farnast vel!

Njótið dagsins“ 

Á Menntavísindasviði heldur móttaka nýnema áfram út vikuna með fjölbreyttum kynningum, lífi og fjöri í Stakkahlíð.

Dagskrá:

Þriðjudagur 23. ágúst Kl. 11 – 14

Nýsköpun, tækni og vísindi

 • Vísindasmiðjan
 • Lego-keppnin
 • Mixtúra sköpunar- og upplýsingatækniver SFS. Kynning í Fjöru og opið hús í Mixtúru
 • MEMA menntamaskína– nýsköpunarhraðall fyrir framhaldsskólanema og Fablab Reykjavík.
 • NKG og Samsýningin. Sýning og kynning á náms- og stuðningsefni. Verð einnig með kynningu á kennslubók fyrir grunnskóla, frá Framtíðarsetri Íslands

Miðvikudagur 24. ágúst Kl. 11 – 13.

 • Stúdentaráð
 • Femínistafélag Háskóla Íslands
 • Q – Félag Hinsegin Stúdenta
 • Hugrún Geðfræðslufélag

Fimmtudagur 25. ágúst Kl. 11 – 13.

 • Alþjóðasvið Háskóla Íslands – Skiptinám og alþjóðasamskipti
 • Una Torfa spilar nokkur lög kl. 12.30
 • Matarvagnar á svæðinu 

Myndir: Kristinn Ingvarsson

Nemendur á Menntavísindasviði kynna félagsstarf og fleira.