Skip to main content
17. janúar 2018

Hlutverk þýðinga í íslenskum bókmenntum

Út er komin bókin Orðaskil eftir Ástráð Eysteinsson prófessor. Í bókinni er fjallað um veigamikið hlutverk þýðinga í íslenskum bókmennta- og menningarheimi. Höfundur rýnir í mikilvægar íslenskar þýðingar á ljóðum, sögum og leikritum og tekur meðal annars til umfjöllunar Halldór Laxness og Ernest Hemingway, Magnús Ásgeirsson og Gunnar Gunnarsson, Paradísarmissi þeirra Johns Milton og Jóns Þorlákssonar, glímu Sigurðar A. Magnússonar við Ulysses eftir James Joyce og þýðingar Helga Hálfdanarsonar á Shakespeare og Goethe.

Í ritinu er ennfremur hugað að þýðingum í víðum skilningi – þegar skáldsaga er flutt á hvíta tjaldið eða klassískur texti endurritaður á sínu máli en á nýjum forsendum. Einnig er fjallað almennt um þá menningarsamræðu sem einkennir þýðingar, spurt um málræktargildi þeirra og ígrunduð staða þeirra í bókmenntasögunni og hutverk þeirra á sviði heimsbókmenntanna.

Háskólaútgáfan gefur bókina út fyrir Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands.