Skip to main content
21. september 2016

Hlín Agnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar

""

Hlín Agnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands veturinn 2016–17. Hún kennir ritsmiðjur í leikritun í meistaranáminu í ritlist og í ritfærni í grunnnámi. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar var fyrst stofnað árið 2015 og hafa þau Sigurður Pálsson og Vilborg Davíðsdóttir gegnt starfinu áður.

Hlín er fjölmenntuð í leiklistar- og bókmenntafræðum, hefur post-graduate gráðu í leikstjórn frá Drama Studio í Lundúnum, fil.kand-próf í leiklistarfræðum frá Stokkhólmsháskóla og MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað fjölda leikrita, m.a. Konur skelfa og Gallerí Njála sem sett voru upp í Borgarleikhúsinu. Í lok febrúar á þessu ári var eitt af verkum hennar, Flóttamenn (Refugees), leiklesið hjá Scandinavian American Theatre Company í New York af bandarískum og norrænum leikurum. Leiklesturinn var hluti af árlegri kynningu leikhússins á nýjum norrænum verkum en leikhúsið hefur staðið fyrir þeim sl. fimm ár. Hlín hefur sent frá sér þrjár bækur, skáldsögurnar Hátt uppi við Norðurbrún árið 2001 og Blómin frá Maó 2009 og sannsöguna Að láta lífið rætast 2003 en fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Á undanförnum árum hefur Hlín fengist við kennslu í ritlist og leiklist við Kvikmyndaskóla Íslands og Háskóla Íslands. Í lok júní kenndi hún einnig á vikulöngu þingi Interplay Europe fyrir ung leikskáld í Evrópu sem fram fór við Ljungskile-lýðháskólann í Svíþjóð. Höfundarnir sem sóttu námskeiðið komu frá 20 löndum í Evrópu. Hlín hefur ennfremur starfað sem leikstjóri og dramatúrg bæði í atvinnu- og áhugaleikhúsi um árabil auk þess sem hún hefur verið leiklistargagnrýnandi á DV og í Kastljósi á RÚV.

Hlín Agnarsdóttir
Hlín Agnarsdóttir