Skip to main content
25. apríl 2022

Hanna tekur við prófessorsstöðu í Noregi

Hanna tekur við prófessorsstöðu í Noregi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur tekið við stöðu prófessors við Høgskolen i Innlandet (e. Inland Norway University of Applied Sciences) í Noregi til þriggja ára.
 
Hanna hóf formlega störf hjá skólanum í síðasta mánuði og mun meðal annars sinna leiðsögn doktorsnema og sitja í nefndumum doktorsverkefni skólans ásamt því að þróa námskeið fyrir doktorsnema sem einnig gætu nýst doktorsnemum á Menntavísindasviði. „Ég vona að með þessu opnum við fyrir frekari möguleika doktorsnema á Menntavísindasviði,“ segir Hanna aðspurð um hvaða tækifæri felist í ráðningunni.

Ráðningar sem þessi tíðkast innan alþjóðlegs háskólasamfélags og er til marks um viðurkenningu á störfum Hönnu og þannig eflir HiNN (Høgskolen i Innlandet) rannsóknir og kennslu doktorsnema. Hanna hefur átt samstarf við HiNN um langt skeið, aðallega varðandi rannsóknarverkefni og styrkumsóknir. „Ráðningin er staðfesting á góðu samstarfi okkar til lengri tíma. Stærsta verkefnið sem við höfum unnið saman hingað til fékk styrk frá NordForsk og Rannís (2013-2015) og hét Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Success stories from immigrant students and school communities in four Nordic countries,“ útskýrir Hanna en Høgskolen i Innlandet var einn af fimm háskólum sem tóku þátt í því verkefni. Þess ber að geta að Hanna hefur einnig  setið í dómnefndum vegna ráðninga og framgangs akademískra starfsmanna við HiNN.
 
Í rannsóknum Hönnu hefur verið vakin athygli á fjölbreytni og fjölmenningu á Íslandi. Hún hlaut styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins í fyrra fyrir verkefnið Promoting Cultural diversity in primary and lower-secondary schools (DIVERS-CULT) sem miðar að því að auka þekkingu nemenda og kennara á fjölbreytni í skólum. Einnig hlaut hún styrk úr Erasmus+ áætluninni síðastliðið haust fyrir verkefnið Global Teacher Education (GatherED). Fyrr á þessu ári fékk hún síðan verkefnisstyrk Rannís vegna rannsóknarinnar: Tungumálastefna og starfshættir fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda á Íslandi og áhrif þeirra á menntun.  

Hanna Ragnarsdóttir