Skip to main content
15. nóvember 2019

Gagnreyndar lausnir draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum

 Gagnreyndar lausnir draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hægt væri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í borgum og bæjum á Norðurlöndum sem nemur helmingi árlegrar losunar Noregs með því að nýta fjórtan loftslagslausnir, sem þegar eru í notkun í norrænu ríkjunum. Þetta sýna niðurstöður samnorræna verkefnisins Green to Scale. Ný skýrsla aðstandenda verkefnisins verður kynnt á opnum fundi í Norræna húsinu á mánudaginn kemur, 18. nóvember.
Um það bil 70% losunar koltvísýrings á heimsvísu kemur frá borgum og bæjum en miklu skiptir að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til þess að sporna gegn hlýnun loftslags um allan heim. Borgir gegna því lykilhlutverki þegar kemur að innleiðingu loftslagslausna. Í Green to Scale verkefninu er sýnt fram á hvernig má yfirfæra þekktar og reyndar loftslagslausnir milli norrænna borga með litlum tilkostnaði til hagsbóta fyrir umhverfi og íbúa. 

Verkefnið hefur notið forystu finnska nýsköpunarsjóðsins Sitra og er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni. Að því koma fjölmargar rannsóknarstofnanir á Norðurlöndum, þeirra á meðal Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands sem hefur  leitt verkefnið yfir Íslands hönd.

„Verkefnið leiðir í ljós að að með því að nýta 14 lausnir, sem þegar hafa reynst vel víða á Norðurlöndum og snerta orkumál og iðnað, byggingageira, samgöngur og matvælaframleiðslu og matarsóun, megi draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á þessu svæði. Um leið geta norrænar borgir og bæir spara umtalsverða fjármuni, um 460 milljónir evra sem jafngildir nærri 63 milljörðum króna,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, sem er í stýrihóp verkefnisins. 

Meðal þeirra 14 lausna sem horft er til er aukin nýting vindorku sem hefur dregið verulega úr bæði útstreymi koltvísýrings í Rinköbing og Kaupmannahöfn í Danmörku, nýting glatvarma frá gagnaverum til húshitunar eins og gert hefur verið í Mantsala í Finnlandi, notkun jarðvarma til húshitunar, eins og í Reykjavík, notkun almenningssamgangna eins og í Helsinki í Finnlandi, og aukin notkun rafmagnsbíla líkt og í Osló. „Með því að nota þessar fjórtán lausnir, sem þegar hafa gefist vel, í fleiri norrænum borgum en nú er gert mætti draga úr losun koltvísýrings sem nemur 26 milljónum tonna en það jafngildir um helmingi af losun Noregs á síðasta ári,“ segir Brynhildur.

Brynhildur verður meðal framsögumanna á fundi í Norræna húsinu á mánudag þar sem nýjasta skýrsla Green to Scale verkefnisins verður kynnt og hún sett í samhengi við íslenskar aðstæður. Auk hennar flytja þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Mariko Landström, loftslagssérfræðingur hjá Sitra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri erindi á fundinum.

Bein útsending verður frá fundinum

Að kynningu lokinni verða pallborðsumræður um hvaða loftslagslausnir frá norrænum borgum, borgir og þéttbýlisstaðir á Íslandi geta tekið sér til fyrirmyndar. Ofangreindir aðilar taka þátt í þeim ásamt Þorsteini R. Hermannsson, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, og Hrund Gunnsteinsdóttur framkvæmdastjóra Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Fundarstjóri verður Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands.

Fundurinn í Norræna húsinu hefst kl. 15. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin. 

"Brynhildur Davíðsdóttir"