Skip to main content
19. júlí 2018

Fjölbreytt sumarverkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna

Deilibílar á Íslandi, matarprentun fyrir bætta heilsu aldraðra, lífsbarátta borgarkríunnar, ákall samfélagsins um smáheimili á Íslandi, menntun í hnattrænni borgarvitund, tölvugerð þrívíddarhönnun líffæra og líffærakerfa fyrir kennslu í líffærafræði og notkun fjarkönnunar til að greina útbreiðslu alaskalúpínu á Skeiðarársandi eru meðal þeirra verkefna sem nemendur við Háskóla Íslands munu fást við í sumar með stuðningi Nýsköpunarsjóði námsmanna. Um helmningur verkefnanna sem fengu styrk úr sjóðnum tengist Háskóla Íslands og samstarfsstofnunum hans.

Nýsköpunarsjóður námsmanna veitir háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða háskólanema í grunn- og meistaranámi í sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni sem þykja líkleg til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Að þessu sinni barst sjóðnum 171 umsókn um styrk fyrir 266 nema. Sjóðurinn hafði 73 milljónir til úthlunar og skiptast þær á milli 72 verkefna sem 108 nemendur koma að.

Lista yfir styrkt verkefni má nálgast á vef Rannís, sem heldur utan um sjóðinn. Þar má sjá að Háskóli Íslands og tengdar stofnanir koma að um helmingi verkefnanna sem mörg hver eru unnin í samstarfi við aðra háskóla, vísindastofnanir og fyrirtæki í landinu.

Auk ofangreindra verkefna sem snerta Háskólann má nefna rannsókn á afleiðingum ofbeldis og virði þess að þurfa ekki að þola slík áföll, þróun hugtakasafns ferðamála, hugbúnað til aðstoðar við röðun skurðaðgerða, mat á varpstofni þrasta, áhrif norðurslóðastefnu Kína á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, tengslin sem myndast við matarborðin og nýjar leiðir í innleiðingarferli stefnumótunar við eflingu máls og læsis á frístundaheimilum.

Styrkþegar skila inn greinargerðum um verkefni sín og á grundvelli þeirra velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem veitt verða snemma árs 2019.

Nemendur í Háskóla Íslands