Skip to main content
5. apríl 2016

Fjölbreytt námsframboð fyrir starfandi kennara

Fjölbreytt námsframboð fyrir starfandi kennara - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kennaradeild Háskóla Íslands býður upp á fjölbreytt framhaldsnám fyrir starfandi leik-, grunn- og framhaldsskólakennara sem lokið hafa B.Ed.-gráðu eða annarri viðurkenndri bakkalárgráðu og hafa leyfisbréf. Sérstök athygli er vakin á nýjum námsleiðum sem í boði eru skólaárið 2016–2017 en þær eru skipulagðar sem sveigjanlegt nám með starfi.

Framhaldsnám grunnskólakennara

Ný 120 eininga (ECTS) námsleið fyrir starfandi grunnskólakennara sem lýkur með meistaraprófi að loknu 3–4 ára námi. Námið er að mestu leyti sérsniðið í þeim skilningi að gert er ráð fyrir að nemendur haldi hópinn og áhersla er lögð á tengsl við starfsvettvang þátttakenda, þ.e. að viðfangsefni í námskeiðum tengist viðfangsefnum þátttakenda í eigin starfi. Námið er að hluta til í boði í júní og ágúst, utan starfstíma grunnskóla og er að mestum hluta skipulagt sem fjarnám.

Meðal námskeiða eru: Störf og ábyrgð umsjónarkennara, Hæfniviðmið, námsmat og prófagerð og Kennsla í margbreytilegum nemendahópi.

Umsjónarmaður námsins er Meyvant Þórólfsson (meyvant@hi.is). Umsóknarfrestur er til 15. apríl nk.

Menntun framhaldsskólakennara 

Nýtt námssvið fyrir starfandi framhaldsskólakennara sem eru með leyfisbréf en hafa áhuga á að ljúka meistaranámi. Námssviðið er 120 einingar (ECTS) en kennarar geta sótt um að fá metið fyrra nám til kennsluréttinda allt að 60 einingum (ECTS). Þeir sem óska eftir innritun á þetta svið setja saman rökstudda námsáætlun um tiltekin námskeið sem þeir vilja taka en þau þurfa að tengjast fyrirhugaðri meistaraprófsritgerð. Námskeiðin geta verið úr faggrein kennarans, sérhæfðum námskeiðum sem tengjast kennslufræði faggreinar eða öðrum námskeiðum eftir samkomulagi.

Umsjónarmaður námsins er Þuríður Jóhannsdóttir (thuridur@hi.is). Umsóknarfrestur er til 15. apríl nk.

Málþroski og læsi

Ný 30 eininga (ECTS) viðbótardiplóma á sviði máls og læsis. Námið er ætlað kennurum í leik- og grunnskólum og öðru fagmenntuðu starfsfólki sem hefur hug á að efla þekkingu sína, færni og fagvitund á þessu sviði. Námið gagnast m.a. við fagstjórn og önnur leiðtogahlutverk, kennslu tvítyngdra barna, þróun kennsluhátta og við að bæta árangur kennslu á sviði máls og læsis í leik- og grunnskólum. Nemendur velja þrjú 10 eininga (ECTS) námskeið.

Meðal námskeiða eru: Tvítyngi og læsi, Mál og lestrarerfiðleikar og Málþroski og þróun málnotkunar.

Umsjónarmaður námsins er Steinunn Torfadóttir (torfad@hi.is). Umsóknarfrestur er til 15. apríl nk.

Nám fyrir grunnskólakennara - stærðfræðimenntun

Eins vetrar nám á meistarastigi fyrir kennara með leyfisbréf í grunnskóla. Kennarar geta valið hvort þeir taka 15 eða 30 einingar (ECTS) og geta þeir nýtt þessar einingar sem valeiningar í meistaranámi í Náms- og kennslufræði. Markmið námsins er að styðja kennara til aukinnar framsækni í stærðfræðikennslu. Námið er að hluta til í boði í júní og ágúst, utan starfstíma grunnskóla og er að mestum hluta skipulagt sem fjarnám.

Meðal námskeiða eru: Samræður í stærðfræði, Líkindareikningur og talningarfræði  og GeoGebra.

Umsjónarmaður námsins er Guðbjörg Pálsdóttir (guðbj@hi.is). Umsóknarfrestur er til 5. júní nk.

Sjá reglur um mat á fyrra námi á vef Háskóla Íslands.

Sótt er um allt framhaldsnám á vef Háskóla Íslands.

Drengir að kubba