Skip to main content
31. október 2016

Björg meðal höfunda Participatory Constitutional Change

""

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Lagadeild, er meðal höfunda ritsins Participatory Constitutional Change – the People as Amenders of the Constitution, sem kom nýverið út hjá Routledge-bókaútgáfunni. Um er að ræða nýtt rit um þátttöku borgara í stjórnarskrárbreytingum. 

Ritstjórar bókarinnar eru Xenophon Contiades og Alkmene Fotiadou. Bókin er fyrsta ritið sem gefið er út á vegum rannsóknahóps háskóla um stjórnarskrárgerð og stjórnarskrárbreytingar sem var settur á fót árið 2014.

Í bókinni fjalla 13 fræðimenn við evrópska og bandaríska háskóla um aðkomu borgara að stjórnarskrárskrárgerð og breytingum á stjórnarskrá, stjórnskipunarkenningar um að allt vald komi frá þjóðinni og hvernig þær birtast. Greindar eru ástæður þess að vaxandi áhersla er á aukinn þátttökurétt þjóðarinnar í mörgum lýðræðisríkjum, bæði við stjórnarskrárbreytingar og aðrar pólitískar ákvarðanir.

Þá er fjallað um hvaða takmarkanir er nauðsynlegt að setja þjóðaratkvæðagreiðslum með tilliti til verndar mannréttinda og lýðræðis en á síðustu árum hafa m.a. komið fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss um efni sem stefna að því að skerða réttindi tiltekinna hópa í samfélaginu.

Í kafla Bjargar sem ber heitið „The people‘s contribution to constitutional changes: Writing, advising or approving? Lessons from Iceland“, er lýst vinnuferlinu við gerð frumvarps til nýrrar stjórnarskrár á Íslandi árin 2010 til 2012 og lagt mat á kosti þess og galla m.a. út frá kenningum um stjórnarskrárhyggju og stjórnarskrárbundið lýðræði.

Í bókinni er fjallað um nýjungar í fleiri ríkjum við undirbúning stjórnarskrárbreytinga, þar á meðal stjórnlagasamkomu Írlands sem starfaði árin 2012 til 2014 og afrakstur af starfi hennar.

Björg Thorarensen
Ritið Participatory Constitutional Change
Björg Thorarensen
Ritið Participatory Constitutional Change