Skip to main content
12. ágúst 2020

Bæta þjónustu við sjúklinga á leið á Vog

Bæta þjónustu við sjúklinga á leið á Vog - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eftirspurn eftir meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn hefur aukist umfram framboð hér á landi á undanförnum misserum og á fyrstu sex mánuðum ársins var lengsti biðtími sjúklings, sem beið eftir innlögn og meðferð á sjúkrahúsinu Vogi, yfir 300 dagar. Því er talin brýn þörf á að bæta þjónustu við sjúklinga sem glíma við þennan alvarlega sjúkdóm og að því verkefni hafa bæði vísindamenn og nemendur Háskóla Íslands unnið að undanförnu í samstarfi við starfsfólk á Vogi.

Um er að ræða rannsóknarverkefni sem hófst í sumar en markmið þess er þróa frumgerð af samskiptakerfi sem hægt er að nota til að aðstoða skjólstæðinga á meðan þeir bíða eftir því að komast í meðferð á sjúkrahúsinu. Meðferðin myndi þar af leiðandi hefjast um leið og skjólstæðingur leggur inn innlagnarbeiðni.

„Rafræn samskipti við skjólstæðinga í aðdraganda meðferðar eru komin mjög stutt á Íslandi og víðar í heiminum. Leiðbeinendur í verkefninu hafa hins vegar  mikla reynslu á þessu sviði en þeir hafa meðal annars unnið með Landspítala, Heilsugreind ehf., Landlækni og Origo hf. að þróunarverkefni sem hafði það markmið að bæta undirbúning í aðdraganda skurðaðgerða, þar sem Heilsuvera er notuð í samskiptum milli skjólstæðinga og Landspítalans. Slík tækni hefur ekki verið notuð á Íslandi fyrir samskipti við fólk með fíknisjúkdóm og okkur er heldur ekki kunnugt um að það hafi verið reynt erlendis. Með aðstoð kerfisins geta skjólstæðingar fengið greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins,“ segir Þórdís Rögn Jónsdóttir, ein af þeim sem koma að verkefninu.

Ásamt Þórdísi vinna þau Ari Kvaran og Sunneva Sól Ívarsdóttur að verkefninu en þremenningarnir luku BS-námi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands í vor. Ísól Sigurðardóttir, tölvunarfræðinemi við Háskóla Reykjavíkur, er einnig hluti af verkefnateyminu en leiðbeinendur eru þeir Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Verkefnið er unnið í samstarfi við SÁÁ þar sem Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, er aðaltengiliður teymisins.

Áhuginn á verkefninu kviknaði, að sögn teymisins, í námskeiðinu „Aðgerðagreining“ í Háskóla Íslands vorið 2019. „Þar fengum við frjálsar hendur við að búa til og leysa bestunarverkefni sem snýst um að finna bestu mögulegu lausn á tilteknu ferli. Okkur langaði að finna viðfangsefni sem höfðaði til okkar og tengdist málefnum sem væri brýn þörf á að bæta. Mikil umræða hafði verið í samfélaginu um fíkn og við nýttum því tækifærið í þessu verkefni og tólin sem við fengum í hendurnar í áfanganum til að „besta“ biðlistann á sjúkrahúsinu Vogi. Það var gert til þess að hægt væri að nýta fjölda rúma á Vogi sem best og koma fleiri sjúklingum að. Verkefnið gekk vel og var útkoma þess kynnt fyrir starfsfólki SÁÁ í maí 2019. Það sýndi verkefninu mikinn áhuga og við sáum tækifæri á nánara samstarfi. Vorið 2020 ákváðum við því að kortleggja umsóknarferlið, frá því að lögð er inn innlagnarbeiðni þar til skjólstæðingur er lagður inn á Vog, með það að markmiði að finna möguleg tækifæri til umbóta í ferlinu.“

Ný meðferð, svokölluð grunnmeðferð, var tekin í notkun á göngudeild SÁÁ í október í fyrra og hún hefur skilað góðum árangri. Grunnmeðferð í göngudeild getur komið í stað innlagnar í sumum tilvikum en margvísleg úrræði eru í deildinni. Líklegt má því telja að tilkoma samskiptakerfis geti gegnt mikilvægu hlutverki í því að aðstoða skjólstæðinga við að hefja meðferð fyrr, mæta betur undirbúin á Vog og ná fyrr bata. Þá má einnig ætla að innlagnartími skjólstæðinga á Vogi styttist og að fleiri komist þar af leiðandi að.

„Eins og staðan er í dag eru samskipti sjúkrahússins við skjólstæðinga á biðlista lítil sem engin og það getur reynst þeim sem bíða sem lengst mjög erfitt. Með tilkomu samskiptakerfisins vonumst við til þess að fólk með áfengis- og vímuefnafíkn fái betri þjónustu og geti hafið meðferð um leið og það leggur inn innlagnarbeiðni á Vog. Biðlisti sjúkrahússins er breytilegur og afdrif innlagnarbeiðna sýna að 15% hætta við og 22% eru það illa sett að ekki næst í þau eða þau mæta ekki á innlagnardegi,“ bendir Þórdís á og bætir við að með því að vísa einstaklingum í önnur úrræði sem henti þeim mögulega betur en innlögn, þá vonist aðstandendur verkefnisins til þess að koma þeim sem þurfa á innlögn að halda fyrr í meðferð á sjúkrahúsinu.

„Þannig fæst betri mynd af raunverulegum fjölda einstaklinga á biðlistanum ásamt því sem þeir fá úrræði við hæfi. Við vonumst til að samskiptakerfið muni jafnframt auðvelda SÁÁ að koma á fót árangursmælingum sem samtökin gætu nýtt sér í framtíðinni til að bæta úrræði og þjónustu við skjólstæðinga enn frekar. Þá vonum við að kerfið bæti utanumhald, spari stofnuninni tíma og dreifi álagi milli úrræða.“

Sú leið, sem farin er í þessu verkefni, gæti því skilað talsverðum samfélagslegum og fjárhagslegum ávinningi með tiltölulega litlum tilkostnaði. „Margar erlendar rannsóknir sýna að betri undirbúningur fyrir t.d. skurðaðgerðir stytti innlagnartíma og flýti fyrir bata. Nýleg gögn frá göngudeild SÁÁ styðja þær niðurstöður. Samskiptakerfið myndi því ekki einungis skila ávinningi fyrir fólk sem glímir við áfengis- og vímuefnafíkn og aðstandendur þeirra heldur samfélagið í heild.“

Þau Ari, Sunneva, Þórdís og Ísól á Háskólatorgi. MYND/Kristinn Ingvarsson