Skip to main content
3. maí 2022

Áfram á lista þeirra háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif

Áfram á lista þeirra háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórða árið í röð er Háskóli Íslands á lista Times Higher Education yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Listinn var birtur nýverið og er HÍ efstur íslenskra skóla þar.

Listinn nefnist Impact Rankings og grundvallast á mati tímaritsins á því hvernig háskólar uppfylla tiltekna mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og framlag til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem eru 17 talsins. Heimsmarkmiðunum er ætlað að leiða þjóðir heims í átt að sjálfbærari lifnaðarháttum en þau snúast m.a. um að vinna gegn fátækt og hungri í heiminum og stuðla að fæðuöryggi, góðri heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, aðgengi að vatni og orku, ábyrgri neyslu og framleiðslu, aðgerðum í loftslagsmálum, verndun úthafanna og sjálfbærri nýtingu vistkerfa.

Í mati Times Higher Education er horft til allra markmiðanna 17 og fær hver skóli einkunn fyrir frammistöðu sína í tengslum við hvert og eitt heimsmarkmið. Röðun háskólanna á listanum byggist svo á frammistöðu þeirra á sviði þriggja heimsmarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi auk frammistöðu sem tengist markmiði 17, Samvinnu um markmiðin. 

Háskóli Íslands er talinn standa fremst í markmiðum sem snerta nýsköpun og uppbyggingu (markmið 9), heilsu og vellíðan (markmið 3) og góða atvinnu og hagvöxt (markmið 8). Samanlagt er Háskóli Islands í sæti 400-600 á lista Times Higher Education að þessu sinni en metfjöldi háskóla var metinn að þessu sinni, yfir 1.500 háskólar í 110 löndum. 

Impact Rankings listinn er ólíkur öðrum þekktum listum yfir fremstu háskóla heims að því leyti að þar er ekki bara horft til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi heldur áhrifa á nærsamfélag og alþjóðasamfélag. Fremstu skólarnir á þessum lista eru því ekki endilega þeir sömu og teljast bestir í rannsóknum og kennslu samkvæmt þekktum matslistum heldur þeir sem leggja mikla áherslu á að leggja sem mest af mörkum til baráttu samfélaga við helstu áskoranir heims. 

Háskóli Íslands leggur í stefnu sinni, HÍ26, sem hefur yfirskriftina „Betri háskóli – betra samfélag“, mikla áherslu á að áhrif hans séu sem mest á íslenskt samfélag og styðji það í að takast á við helstu áskoranir samtímans. Í stefnunni er m.a. bent á að öflug þátttaka háskólasamfélagsins sé forsenda þess að Ísland geti lagt sín lóð á vogarskálar heimsmarkmiðanna. Jafnframt leggur skólinn áherslu á að vera opinn og alþjóðlegur sem felur m.a. í sér að auka alþjóðleg áhrif hans, bæði í kennslu, námi, rannsóknum og nýsköpun. 

Yfirlit yfir áhrifamestu háskóla heims samkvæmt Times Higher Education er að finna á vefsíðu tímaritsins.

Háskólasvæðið