Uppeldis- og menntunarfræði, viðbótardiplóma 30e


Uppeldis- og menntunarfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
30 eininga viðbótardiplóma er hugsað fyrir þau sem vilja efla tengsl við vettvang og bæta við sig námi á meistarastigi án þess að fara í fullt meistaranám. Umsækjendur þurfa að hafa lokið grunnnámi með fyrstu einkunn. Námið er skipulagt sem staðnám eða sveigjanlegt nám.
Skipulag náms
- Haust
- Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra
- Greining á fræðsluþörfum í símenntunB
- Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðnaE
- Vor
- Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnumB
- Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinnaE
- Gæðastjórnun í símenntunB
- Óháð misseri
- Gagnvirk og eflandi menntun IB
Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra (NAF003F)
Símenntun, endurmenntun, mannauðsþróun eru hugtök sem æ fleiri þurfa að takast á við vegna vinnu sinnar. Stjórnendur þurfa til dæmis að útbúa símenntunaráætlanir, sérfræðingar þurfa að kenna samstarfsfólki sínu, kennarar koma að foreldrastarfi eða starfsþróun samkennara sinna og svo mætti lengi telja. Þetta námskeið er fyrir fólk sem vill dýpka skilning sinn á námi fullorðinna, til að geta betur tekið ákvarðanir um símenntun, skipulagt fræðslustarf eða unnið á annan hátt með fullorðnum sem ætla að læra. Námskeiðið gefur fræðilegan grunn undir allt fræðslustaf með fullorðnum.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist haldgóða þekkingu á rannsóknum og kenningum um nám fullorðinna, og geti nýtt þá þekkingu til að taka rökstuddar ákvarðanir í tengslum við skipulagningu náms fyrir fullorðna og / eða við það hjálpa fullorðnum á annan hátt til að læra, takast á við breytingaferli og þroskast.
Inntak / viðfangsefni
Til að ná þessum yfirmarkmiðum takast nemendur við þrjú aðal viðfangsefni á námskeiðinu:
- Greiningu á hlutverki náms og menntunar fullorðinna í ljósi þróunar samfélagsins, rannsókn á því hvernig stofnanir samfélagsins hafa brugðist við - einkum hvað varðar aðgerðir sem ætlað er að styðja við nám fullorðinna. Þátttakendur læra að nota ýmis verkfæri til þess að greina samtímann og meta mögulegar þarfir fullorðinna fyrir nám.
- Rannsókn á sérkennum og sérstöðu fullorðinna námsmanna. Könnun á kenningum um hið sama og greining á gagni þeirra til að skýra og skipuleggja nám fyrir fullorðna og með þeim.
- Þátttakendur kynna sér nokkur meginstef úr kennslufræði fullorðinna. Hugmyndir um fullorðna námsmenn, þátttöku þeirra í fræðslu, áhugahvöt og hindranir, hlutverk leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu, mótun námsumhverfis, samskipti kennara og nemenda og fleira.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins, t.d. í gegnum skriflegar umræður á umræðuþráðum námskeiðsins.
Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið hentar öllum þeim sem koma – eða vilja koma – á einhvern hátt að ákvörðunum um nám fullorðinna, skipulagningu þess og útfærslu. Það hentar þannig fólki sem starfar við mannauðs- og fræðslumál innan fyrirtækja og stofnana, stjórnendur og verkefnastjóra í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og sérfræðingum sem hafa áhuga á að kenna fullorðnum. Námskeiðið býður þessu fólki tækifæri að afla sér góðrar grunnþekkingar á helstu spurningum og viðfangsefnum sem snerta nám fullorðinna, forsendur, aðstæður og skipulagningu þess. Námskeiðið gefur þannig góða undirstöðu fyrir alls konar verkefni er varða nám fullorðinna almennt.
Bókalisti og kennsluskrá: Fullorðnir námsmenn og aðstæður þeirra | namfullordinna.is
Greining á fræðsluþörfum í símenntun (NAF201F)
Eitt fyrsta skrefið við skipulagningu náms fyrir fullorðna er að greina þörf væntanlegra þátttakenda fyrir fræðslu. Það gerirst æ algengara að fræðsluaðilar ýmiskonar þurfa að vinna með væntanlegum viðskiptavinum sínum, fyritækjum, stofnunum eða félagasamtökum að þróun sérsmíðaðra námstilboða sem taka mið af menningu og þörfum viðkomandi viðskiptavinar. Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur geti greint námsþarfir fullorðinna og sett niðurstöðurnar þannig fram að þær nýtist þeim sjálfum eða öðrum við skipulagningu námskeiða.
Vinnulag:
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins.
Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna (NAF005F)
Hvernig fáum við þátttakendur á námskeiðin okkar? Hvernig skipuleggjum við námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til "réttu" þátttakendanna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?
Þessum spurningum og fleiri svipuðum munu þátttakendur leita svara við á námskeiðinu "Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna"
Bæði markaðsfræðin og kennslufræðin búa yfir kenningum, og aðferðum sem geta hjálpað stjórnendum, skipuleggjendum og kennurum að skipuleggja og kynna námstilboð þannig að þau mæti þörfum væntanlegra þátttakenda, og til þess að þeir sem hefðu gagn af því að nýta sér námstilboðin viti af þeim og geti sótt þau.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér kenningar og aðferðir markaðsfræði og kennslufræði við skipulagningu á fræðslu fyrir fullorðna, einkum við það að velja viðfangsefni, markhópa, námsform, staðsetningu og kynningu. Á námskeiðinu verður fjallað bæði um „innri“ markaðssetningu – þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar sem og markaðssetningu fyrir hinn almenna markað.
Stefnt er að því að þátttakendur muni að námskeiði loknu…
- hugsa um fræðslustarf fyrir fullorðna frá sjónarhóli væntanlegra þátttakenda.
- geta nýtt sér hugmyndir markaðsfræði og kennslufræði um s.k. þátttakendamiðun, og markhópamiðun við skipulagningu fræðslu.
- kunni til verka við að útbúa markaðsáætlun fyrir tiltekin námstilboð, þjónustu eða fyrir stofnun sína sem heild.
- geti rökstutt svo kallað val svo kallaðra söluráða fyrir tiltekið námstilboð (þætti eins og markhóp, staðsetningu, kynningu, skipulagningu námskeiðsins sjálfs, hvað þátttakendur fá út úr námskeiðinu ofl. ).
- hafi haldgóðar hugmyndir um það hvernig megi nýta vefinn og aðra miðla í markaðsstarfi fræðslustofnunar eða deildar
Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað bæði um "innri" markaðssetningu - þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar- sem og "ytri" markaðssetningu - fyrir hinn almenna markað. Til þess að ná markmiðum námskeiðsins kynna þátttakendur sér helstu hugmyndir og kenningar markaðsfræðinnar - einkum í tengslum við markaðssetningu fræðslu. Þá munu þáttakendur einnig kynnast kenningar og nálgunum úr fullorðinsfræðslunni sem tengjast svipuðum viðfangsefnum ss. "þátttakendamiðun fræðslu" og "markhópastarf í fræðslu" og skoða hvernig sjónarhorn markaðsfræðinnar og kennslufræðinnar tengjast og geta nýst saman. Þá kynna þátttakendur sér ýmsar hagnýtar leiðir og aðferðir við markaðssetningu námskeiða. Þátttakendur geta unnið bæði hagnýt og fræðileg verkefni og tengt þau við þær kenningar, hugmyndir og aðferðir sem þeir tileinka sér á námskeiðinu.
Fyrir hverja er námskeiðið?
Námskeiðið hentar sérlega vel öllum þeim sem þurfa eða vilja skipuleggja námstilboð fyrir fullorðna og/eða koma þeim á framfæri við mögulega þátttakendur. Það nýtist t.d. starfsfólki sem kemur að mannauðs- og fræðslumálum fyrirtækja og stofnana, stjórnendum og verkefnastjórum í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og öðru fólki sem vill koma námskeiðum sínum og öðrum námstilboðum á framfæri við væntanlega þátttakendur.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blandað nám. Það þýðir að þátttakendur hittast (ef aðstæður leyfa) á tvær staðlotur í húsnæði skólans og vinna saman yfir netið þess á milli. Nánari upplýsingar koma þegar nær dregur
Í fjarlotum vinna nemendur saman á vefnum, einstaklingsverkefni, hópverkefni og með öllum hópnum,
Á staðlotum verða stuttir fyrirlestrar kennara og nemenda og umræður, en umfram allt er lögð mikil áhersla á samvinnu þátttakenda um úrvinnslu námsefnisins.
Námsmat
Þátttakendur sem taka námskeiðið til háskólaeininga vinna nokkur einstaklings- og hópverkefni sem verða metin til einkunnar.
Lesefni
- Aðal bók námskeiðsins er: Foundations of Marketing 6. útgáfa eða nýrri eftir John Fahy og David Jobber
- Reiknað er með að þátttakendur lesi a.m.k. tvær aðrar bækur af þessum lista
- Fræðilegar greinar, blogg og vefsíður sem tengjast efninu.
Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum (NAF002F)
Á þessu námskeiði undirbúa þátttakendur sig undir að skipuleggja nám fyrir fullorðna. Þátttakendur auka færni sína í að sinna helstu þáttum þess að undirbúa, skipuleggja, og útfæra hvers kyns námstilboð fyrir fullorðna: Námskeið, fyrirlestra, ráðstefnur, fundi, jafningjafræðslu og sjálfsnámsferli svo eitthvað sé nefnt.
Inntak / viðfangsefni
Þátttakendur skoða algengar nálganir við skipulagningu námsferla fyrir fullorðna, rýna í viðkomandi nálganir læra að nota þær, greina og gagnrýna. Þátttakendur kynna sér nýlega fræðilega umræðu um viðfangsefnið, kynna sér rannsóknir um afmarkaða þætti kennsluhegðunar og bera saman við innihald bókanna sem lesnar eru á námskeiðinu og við þeirra eigin vinnu.
Á námskeiðinu takast þátttakendur á við ýmsa þætti þess að skipuleggja nám fyrir aðra í ólíku samhengi. Þeir kynnast öllum helstu skrefum við skipulagningu náms, allt frá greiningu fræðsluþarfa að skipulagningu kennsluathafna, kennslu og mati á kennslu, þó aðal áherslan liggi á skipulagningarferlið. Þátttakendur kynna sér nokkrar gagnlegar kennsluaðferðir, prófa þær og þjálfa sig í notkun þeirra. Þátttakendur þjálfast einnig í því að nota kennslutæki og nýta þjálfunina þegar þeir æfa sig í kennslu og í því að meta kennslu hver annars. Flest verkefnanna eru mjög hagnýt og geta nýst beint í starfi. Þátttakendur læra t.d. að útbúa námskeiðsmöppu sem inniheldur öll gögn sem þeir þurfa til að kenna tiltekið námskeið. Að námskeiði loknu munu þeir hafa undir höndum slíka möppu og vera tilbúin að halda námskeið með þeim gögnum sem eru í möppunni.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt með formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta á hverjum tíma valið hvort þeir taka þátt í rauntímasamverum með því að mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka svo virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda. Þannig er reynt að koma til móts við þarfir þátttakenda
svo að þeir geti lagað nám sitt að sínum aðstæðum hverju sinni.
Bestur árangur næst með rauntímaviðveru í stoðlotum/vinnulotum og á vikulegum fundum. Þar er
unnið með námsefnið og þátttakendur þjálfast í að vinna með innihald námskeiðsins.
Þátttakendur útbúa á námskeiðinu námskeiðsmöppu fyrir tiltekið námskeið eða undirbúa og rökstyðja námsskipulag fyrir tiltekinn vinnustað eða símenntunarmiðstöð.
Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinna (NAF004F)
Mat og vottun á þekkingu og færni er miðlægur þáttur í öllu skólastarfi og nauðsynlegur hluti fræðslustarfs með fullorðnum. Slíkt mat liggur meðal annars til grundvallar ýmsum réttindum á atvinnumarkaðnum. Með aukinni sókn í símenntun hafa fullorðnir námsmenn og atvinnurekendur í auknum mæli leitað eftir staðfestingu á nýrri á þekkingu og færni starfsmanna sinna. Þar að auki hafa, á undanförnum árum, æ fleiri gert kröfu um vottun á þekkingu og færni sem fullorðnir hafa aflað sér á „óformlegan“ hátt í gegnum starf sitt, tómstundir og reynslu. Einkum á þetta við þegar kemur að því að fullorðinn einstaklingur sest á skólabekk eftir margra ára hlé og vill að það sem hann hefur lært við störf sín verði metið til styttingar námstíma.
Á námskeiðinu Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinna verður tekist á við þessi málefni frá nokkrum sjónarhornum.
Inntak, viðfangsefni og vinnulag
Á námskeiðinu dýpka þátttakendur þekkingu sína á því hvernig nám, þekking og færni fullorðinna er metin. Þeir kynna sér ákveðna þætti um tengsl námsmats, námsskírteina og starfsréttinda. Þeir gera þetta með því að kynna sér stefnu stjórnvalda, viðhorf framkvæmdaaðila, algeng viðhorf, kenningar og aðferðir, ásamt því að dýpka tiltekin svið með því að finna, meta og ræða rannsóknargreinar á sviðinu. Þeir kynna sér hvað tíðkast á Íslandi (og jafnvel víðar) um mat og vottun á færni og þekkingu fullorðina.
Þá setja þátttakendur sig inn í nýlega umræðu um mat á "raunfærni" fullorðinna og grennslast fyrir um hver stefnan og staðan sé á Íslandi í þeim málum og bera saman við stefnu og framkvæmd nágrannalandanna.
Þátttakendur æfa sig í því að meta nám og/eða færni með því að útbúa matsverkfæri sem getur gagnast við að meta nám og/eða færni fullorðins fólks.
Gæðastjórnun í símenntun (NAF001F)
Markmið námskeiðsins er að hjálpa þátttakendum að nýta sér helstu kenningar og aðferðir til að meta, mæla og ræða gagnrýnið um árangur af fræðslustarfsemi fyrir fullorðina.
Þátttakendur læra að framkvæma mat á mismunandi þáttum fræðslustarfs. Þeir munu læra aðferðir og orðaforða sem nýtast þeim bæði við formlegt mat og óformlegt mat á einstaka námskeiðum sem og starfsemi fræðslustofnana eða deilda. Þá verða kannaðar leiðir til að nýta niðurstöður mats til þess að bæta gæði starfsins.
Þá kynna þátttakendur sér nokkrar viðurkenndar leiðir við gæðastjórnun fræðslustarfsemi.
Innihald
Gæðastjórnun, fræðslumat sem hluti gæðastjórnunarferlis. Helstu hugmyndir og aðferðir gæðastjórnunar og mats á fræðslustarfsemi. Tekin verða greiningardæmi og raunhæf verkefni úr atvinnulífinu.
Gagnvirk og eflandi menntun I (UME001M)
Námskeiðið gagnvirk og eflandi menntun er tækifæri til að læra hagnýta þætti kennslu, miðlunar og skapandi vinnu með hópum. Námskeiðið er opið öllum nemendum Háskóla Íslands og í gegnum Endurmenntun HÍ einnig öðrum. Það er boðið bæði haust og vor. Fyrirkomulag námskeiðsins er þannig að nemendur taka stutt hagnýt færninámskeið þar sem unnið er með margvíslegar aðferðir í kennslu, miðlun og lóðsun (sbr. lista fyrir neðan) og ljúka námskeiðinu með því að ljúka a.m.k. þremur færninámskeiðum.
Færninámskeiðin skiptast í fjóra flokka og getur nemandi ýmist tekið námskeið úr ólíkum flokkum eða einbeitt sér að námskeiðum í einum flokki.
Gagnvirk og eflandi kennsla
- Fagmannleg samskipti í fræðslu og samvinnu
- Fjölbreyttar aðferðir til að virkja þátttakendur
- Leiðbeinandinn sem samferðamaður / lóðs (facilitator)
Framsetning námsefnis
- Lifandi og áhrifarík framsögn
- Sýnileg framsetning við fundi og fræðslu
Lýðræðislegar og skapandi aðferðir
- Open Space Technology
- Miðlunaraðferðin
- World Café
- Skapandi lausnaleit (Creative Problem Solving)
Upplýsingatækni til fræðslu og gagnvirkni
- Notkun Upplýsingatækni við nám og kennslu
- Áhrifarík kennsla með fjarfundabúnaði
- Gerð kennsluefnis með hljóð og mynd
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.