Skip to main content

Aðgreining síldarstofna

Lísa Anne Libungan, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Við höfum þegar sýnt fram á að lögun kvarna, sem eru kalksteinar í innra eyra fiska, er mismunandi eftir síldarstofnum og með aðferðinni er mögulegt að greina á milli sjö mismunandi síldarstofna í Norðaustur-Atlantshafi og við Kanada,“ segir Lísa Anne Libungan, doktorsnemi í fiskifræði og stofnlíffræði.

Til að geta metið á áreiðanlegan hátt stofnstærð nytjastofna er nauðsynlegt að hafa nákvæmar aðferðir til að greina í sundur stofna sem blandast á fæðuslóð. Við Ísland blandast tveir síldarstofnar, íslenska sumargotssíldin og norsk-íslenska vorgotssíldin. „Aðferðin sem notuð er í dag byggist á því að meta kynþroskastig fiskanna en hún hefur vankanta sem valda því að hluti aflans er óflokkanlegur. Aðferðin sem ég beiti byggist á tölfræðilegri myndgreiningu á útliti kvarna. Kvarnir eru vistfræðilega merkilegar því að þær eru náttúrulegt mælitæki á umhverfi fisksins og segja til um uppeldisslóðir hans. Við getum nú þegar greint á milli íslensku sumargotssíldarinnar og norsk-íslensku vorgotssíldarinnar með 75% nákvæmni,“ útskýrir Lísa.

Lísa Anne Libungan

„Við höfum þegar sýnt fram á að lögun kvarna, sem eru kalksteinar í innra eyra fiska, er mismunandi eftir síldarstofnum og með aðferðinni er mögulegt að greina á milli sjö mismunandi síldarstofna í Norðaustur-Atlantshafi og við Kanada.“

Lísa Anne Libungan

Við áreiðanlegt stofnstærðarmat og veiðiálag verður að taka mið af þeim stofneiningum sem standa undir nýliðuninni og stærð þeirra. Annars er hætt við að sumir hrygningarstofnar séu ofveiddir og veiðarnar eru þá ekki sjálfbærar til framtíðar. Rannsóknir og þekking á aðgreiningu fiskistofna eru því afar mikilvægar.

Lísa segir verkefnið skemmtilegt, hagnýtt og þjóðhagslega mikilvægt og hún nýtur þess að vera í samstarfi við fjölda vísindamanna víða um heim, þar á meðal Aril Slotte, deildarstjóra uppsjávarfiskadeildar við norsku hafrannsóknastofnunina. Þá má geta þess að verkefnið hlaut styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka í nóvember 2013. „Ég rannsakaði þorskinn í meistaranámi mínu en hann er mikilvægasti nytjastofninn hér við land. Svo valdi ég síldina, sem er næstmikilvægust. Samkvæmt þessu hlýt ég að taka ýsuna næst,“ segir Lísa á léttum nótum.

Leiðbeinendur: Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Guðmundur J. Óskarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Lísa Anne lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2015.