Skip to main content

Réttlæti í norrænum menntakerfum

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið

Með aukinni alþjóðavæðingu hafa tækifæri vísindamanna við Háskóla Íslands til samstarfs við erlend starfssystkini aukist og á það bæði við um samstarf við þjóðir nær og fjær á hnettinum. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor tekur þátt, ásamt stórum hópi samstarfsfólks af Menntavísindasviði og nemum í framhaldsnámi, í afar umfangsmiklu rannsóknasamstarfi sem hverfist í kringum öndvegissetrið JustEd, en það stendur fyrir „Menntun til réttlætis á Norðurlöndunum“.

Sjálf alþjóðavæðing 21. aldarinnar er undir í verkefninu. „JustEd er samstarfsverkefni tólf háskóla á Norðurlöndunum auk þriggja háskóla annars staðar í Evrópu og Ástralíu. Vísindafólk við Helsinki-háskóla hefur forystu um verkefnið en að því koma samtals um 130 vísindamenn og doktorsnemar. Setrið vinnur út frá einni mjög víðtækri rannsóknarspurningu: Hvernig eiga kerfið, menningin og fólkið, sem vinnur að menntamálum þátt í því að stuðla að eða draga úr réttlæti við vaxandi alþjóðavæðingu í velferðarríkjum Norðurlandanna?“ segir Ingólfur.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

„JustEd er samstarfsverkefni tólf háskóla á Norðurlöndunum auk þriggja háskóla annars staðar í Evrópu og Ástralíu. Vísindafólk við Helsinki-háskóla hefur forystu um verkefnið en að því koma samtals um 130 vísindamenn og doktorsnemar."

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Öndvegissetrið hlaut veglegan fimm ára styrk, frá 2013 til 2018, frá rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, NordForsk. Að sögn Ingólfs buðu kollegar við Helsinkiháskóla íslenska rannsóknarhópnum að taka þátt í umsókn um styrk til verkefnisins sem síðan hlaut brautargengi. „Þetta er í eðli sínu regnhlífarsamstarf um ólíkar rannsóknir. Íslenski rannsóknarhópurinn vinnur m.a. að rannsókninni Starfshættir í framhaldsskólum og skoðar líka aðstæður hinsegin fólks í skólum og innleiðingu kynjajafnréttisákvæðis sem finna má í lögum og námskrá í grunnskóla- og framhaldsskólastarfi,“ útskýrir Ingólfur.

Rannsóknir íslenska hópsins hafa farið fram með viðtölum við bæði nemendur, kennara og skólastjórnendur í framhaldsskólum og m.a. varpað ljósi á frumkvæði nemenda í kennslustundum og reynslu þeirra af því að skipta um framhaldsskóla.

„Öndvegissetrið hefur líka gefið íslenskum doktorsnemum sérstök tækifæri til að taka þátt í sumarskóla þrjú ár í röð. Það gengst einnig fyrir margvíslegu rannsóknarsamstarfi þar sem menntavísindafólk á Norðurlöndunum ber saman bækur sínar og birtir saman rannsóknarniðurstöður sem varpa ljósi á þætti sem falla undir lykilspurningu verkefnisins,“ segir Ingólfur.