Skip to main content

Plöntur, grasbítar og loftslagsbreytingar

Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Spár um áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi og áætlanir um hvernig bregðast megi við þeim þurfa að byggja á góðri vistfræðilegri þekkingu. Norðurslóðir hafa hlýnað hraðar en önnur svæði og allar spár benda til að svo verði áfram. Því er mikilvægt að leggja áherslu á rannsóknir á túndrusvæðum. Þessar staðreyndir eru hvatinn að rannsóknum Ingibjargar Svölu Jónsdóttur, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild.

„Markmiðið er að afla þekkingar á samspili plantna og grasbíta og hvernig það mótar svörun túndruvistkerfa við loftslagsbreytingum. Rannsóknin tengir saman nokkur samstarfsverkefni sem fara fram á lágarktískri og fjallatúndru á Íslandi og í Norður-Noregi og háarktískri túndru Svalbarða. Þetta samstarf gefur okkur tækifæri til að skoða mismunandi grasbíta við ólíkar aðstæður. Við nálgumst viðfangsefnið annars vegar með því að bera saman svæði með mismikilli beit, hins vegar með tilraunum þar sem við líkjum eftir hlýnun loftslags og ýmist stjórnum beitinni eða líkjum eftir henni,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

„Grasbítar af ýmsum tegundum hafa geysimikil áhrif á starfsemi vistkerfa sem yfirgnæfa oft svörun við loftslagsbreytingum en þessi áhrif eru breytileg eftir aðstæðum og hvaða grasbítar eiga í hlut og hvort um er að ræða villt beitardýr eða búfé."

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Hún segir fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um að grasbítar kunni að móta svörun vistkerfa við loftslagsbreytingum. „Grasbítar af ýmsum tegundum hafa geysimikil áhrif á starfsemi vistkerfa sem yfirgnæfa oft svörun við loftslagsbreytingum en þessi áhrif eru breytileg eftir aðstæðum og hvaða grasbítar eiga í hlut og hvort um er að ræða villt beitardýr eða búfé. Því er nauðsynlegt að rannsaka samspil grasbíta og plantna við ólíkar aðstæður,“ segir Ingibjörg.

Hagnýtt gildi rannsóknarinnar er mikið að sögn Ingibjargar og tengist m.a. íslensku sauðkindinni. „Vistfræðilegar spurningar sem tengjast sauðfjárbeit á Íslandi hafa lengi verið mér hugleiknar. Sjálfbær sauðfjárbeit þarf að byggja á góðri þekkingu á vistfræði beitar,“ segir hún að lokum, en nýlega birtist yfirlitsgrein um vistfræðileg áhrif sauðfjárbeitar á Íslandi í Icelandic Agricultural Science eftir Ingibjörgu og samstarfsmenn hennar.