Skip to main content

Félagsráðgjafar mikilvægir

Anna Sigrún Ingimarsdóttir, MA frá Félagsráðgjafardeild

„Kveikjan að rannsókninni var í raun strax á fyrsta ári í félagsráðgjöf, í áfanga sem fjallar um áföll, sorg og sálræna skyndihjálp. Ég hugsaði strax með mér að mig langaði að skrifa eitthvað um þetta efni en vissi ekki alveg hvernig. Eftir að hafa kynnt mér málið frekar sá ég að þetta var eldheitt í fræðunum erlendis og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Anna Sigrún Ingimarsdóttir félagsráðgjafi. Hún gerði rannsókn á hlutverki félagsráðgjafa sem viðbragðsaðila í samfélagslegum áföllum, með sérstakri áherslu á náttúruhamfarir.

Anna Sigrún Ingimarsdóttir

Anna gerði rannsókn á hlutverki félagsráðgjafa sem viðbragðsaðila í samfélagslegum áföllum, með sérstakri áherslu á náttúruhamfarir.

Anna Sigrún Ingimarsdóttir

Sveitarfélögin Árborg og Norðurþing voru skoðuð sérstaklega vegna landfræðilegrar legu þeirra. Á báðum stöðum er töluverð jarðskjálftahætta og saga um jarðskjálfta. Hugmyndin var að bera saman tvö sveitarfélög á hættusvæði með mismikla og misnýlega reynslu af samfélagslegum áföllum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að við slíkar aðstæður er hlutverk félagsráðgjafa mjög umfangsmikið, t.d. við að veita áfallahjálp, vera í málsvarahlutverki og að sinna samfélagsvinnu.

Anna Sigrún segir brýna þörf á að skoða þennan málaflokk betur innan félagsráðgjafar hérlendis þar sem rannsóknir á þessu sviði séu að mörgu leyti óplægður akur. Tíðni samfélagslegra áfalla hafi aukist og þ.a.l. afleiðingar þeirra. „Það kallar á viðbrögð innan fræðasamfélagsins og þau hafa komið fram með aukinni áherslu á kennslu og rannsóknir,“ segir hún.

Hún telur mikilvægi verksins liggja í þeirri þekkingu sem það hefur gefið af sér. „Það sýnir fram á alla þá möguleika sem félagsráðgjafar hafa til að fullnýta menntun sína og hvað þarf sérstaklega að hafa í huga þegar hamfarir dynja yfir,“ segir Anna Sigrún að lokum.

Leiðbeinandi: Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild