Skip to main content

Brunaáverkar geta haft alvarlegar langtímaafleiðingar

Brunaáverkar geta haft alvarlegar langtímaafleiðingar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Brynja Ingadóttir er lektor í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og frumkvöðull á sviði fræðslu til þeirra sem þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustuna. Hún hefur þróað tölvuleiki til að nota í sjúklingafræðslu, bæði fyrir börn og fullorðna, og er mjög spennt yfir þeirri nýjung í fræðslu. 

Rannsóknir hennar hafa flestar beinst að sviði fræðslu til sjúklinga, sérstaklega að hjartasjúklingum og bataferli skurðsjúklinga. Þetta skiptir verulegu máli varðandi þann þátt að auka líkur á bata og til að bæta líðan sjúklinga í bataferlinu og til langframa.

„Ég hef verið að skoða væntingar sjúklinga til fræðslu,“ segir Brynja, „og hvernig þær hafa verið uppfylltar, þekkingu þeirra á sjúkdómsástandi sínu og margt fleira.  Ég hef mikinn áhuga á að þróa sjúklingafræðslu, bæði með því að prófa fjölbreyttar kennsluaðferðir en einnig að rannsaka færni heilbrigðisstarfsmanna í þessum mikilvæga hluta starfsins og hvernig styðja megi þá til að bæta slíka hæfni.“

Langtímaáhrif brunaáverka

Í nýrri rannsókn sem Brynja vinnur nú að ásamt samstarfsteymi er verið að kanna langtímaáhrif brunaáverka. Þetta er gert með spurningakönnun sem send var til allra einstaklinga sem hafa lagst inn á Landspítala vegna bruna undanfarin sextán ár. Í tengslum við undirbúning rannsóknarinnar var erlent mælitæki þýtt og staðfært.

„Þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð er á Íslandi með þátttöku brunasjúklinga og veitir mikilvægar upplýsingar sem nýta má til að þróa heilbrigðisþjónustu fyrir hópinn, ekki síst eftirfylgd eftir útskrift,“ segir Brynja. Hún bætir því við að þannig geti rannsóknin nýst bæði heilbrigðisstarfsfólki á heilsugæslustöðvum og á sjúkrahúsum. „Auk þess höfum við nú mælitæki sem hægt er að nýta í slíkri eftirfylgd til að meta líðan brunasjúklinga. Rannsóknin varð einnig viðfangsefni í lokaritgerð eins meistaranema og nemanda sem lauk BS-gráðu í hjúkrunarfræði. Þannig geta rannsóknir einnig vakið áhuga nemenda á viðfangsefninu og þeir taka þátt í að miðla niðurstöðum til þeirra sem málið varða, í þessu tilfelli heilbrigðisstarfsmanna í klínísku starfi.“ 

„Þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð er á Íslandi með þátttöku brunasjúklinga og veitir mikilvægar upplýsingar sem nýta má til að þróa heilbrigðisþjónustu fyrir hópinn, ekki síst eftirfylgd eftir útskrift,“ segir Brynja. 

Brynja Ingadóttir

Hugmynd sprottin úr klínísku starfi

Brynja segir að hugmyndin að þessari rannsókn hafi sprottið upp úr klínísku starfi hjúkrunarfræðinga eins og oft hafi gerst. Í þessu tilviki hafi Lovísa Baldursdóttir, sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala, verið búin að greina þörfina. „Hún hafði forgöngu um að rannsaka þetta efni vegna þess að engin formleg eftirfylgd hefur verið til staðar fyrir þolendur brunaslysa á Íslandi eftir útskrift. Ekkert er vitað um afdrif þeirra eða líðan til langtíma. Hins vegar benda erlendar rannsóknir til að brunaslys geti haft afdrifarík sálræn, félagsleg og líkamleg áhrif.“ 

Brynja hefur unnið á Landspítala í þrjátíu ár og henni finnst mjög mikilvægt að rannsaka efni sem skipta máli fyrir klíníska starfsemi spítalans og hjúkrun. „Við Lovísa höfum starfað lengi saman og þetta var tilvalið tækifæri til að snúa bökum saman og rannsaka þetta mikilvæga efni. Til liðs við okkur kom svo Sigríður Zoëga, sérfræðingur í hjúkrun, þegar kom að úrvinnslu og túlkun gagnanna.“

Þessa dagana er samstarfsteymið að vinna úr gögnunum. Þrátt fyrir að svörun hafi ekki verið eins góð og þær væntu hafa samstarfskonurnar samt niðurstöður sem sýna að þótt meirihluti þátttakenda meti langtímaáhrif brunaáverkans fremur lítil er til staðar hópur sem glímir við alvarlega stöðu. 

„Um er að ræða hóp sem glímir við tilfinningaleg vandamál tengd líkamsímynd, vandamál vegna skertrar hitaskynjunar í húðinni og skertrar starfshæfni, einmanaleika og einangrunar.“