Alþjóðlegt greinasafn um Guðberg | Háskóli Íslands Skip to main content

Alþjóðlegt greinasafn um Guðberg

Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Birna Bjarnadóttir sneri heim til Íslands árið 2015 eftir tólf ára dvöl í Kanada þar sem hún hafði veitt Íslenskudeild Manitóbaháskóla forstöðu. Hún hóf störf sem verkefnastjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í desember það ár og eitt af meginviðfangsefnum hennar tengist samstarfi Háskóla Íslands við Vesturheim. Í tengslum við opnun Vigdísarstofnunar í apríl 2017 var komið á fót styrktarsjóði við Háskólann í nafni Stephans G. Stephanssonar og Birna hefur haft umsjón með því verkefni.

„Markmiðið með sjóðnum er að stuðla að rannsóknasamstarfi fræðimanna á Íslandi og í Vesturheimi á sviði innflytjendabókmennta. Vonir standa til að hægt verði að koma á fót kennslu- og rannsóknastöðu við stofnunina í minningu íslenskra skálda vestan hafs. Ásamt konu sinni, Adriönu, hefur Stephan Vilberg Benediktson, búsettur í Mexíkó, lagt til stofnfé sjóðsins í minningu afa síns, Stephans G. Stephanssonar. Þá hafa hjónin Heather Alda og William Ireland frá Bresku-Kólumbíu í Kanada og hjónin Moorea og Glen Grey frá Alberta í Kanada lagt fé í sjóðinn,“ segir Birna.

Birna Bjarnadóttir

„Um er að ræða greinasafn um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar eftir innlenda og erlenda rithöfunda, þýðendur og fræðimenn, þ.á m. nokkra af lykilþýðendum íslenskra bókmennta á meginlandi Evrópu.“

Birna Bjarnadóttir

Annað af helstu viðfangsefnum Birnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur þessi misserin snýr að útgáfu bókarinnar Heiman og heim. „Um er að ræða greinasafn um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar eftir innlenda og erlenda rithöfunda, þýðendur og fræðimenn, þ.á m. nokkra af lykilþýðendum íslenskra bókmennta á meginlandi Evrópu.“

Bókin verður gefin út í ritstjórn Birnu sem er sérfræðingur í skáldskap Guðbergs. Fyrir utan Vigdísarstofnun kemur Hið íslenska bókmenntafélag einnig að útgáfunni. „Miðstöð íslenskra bókmennta styrkir útgáfuna ásamt Grindavíkurbæ, fyrirtækinu Þorbirni og Bryggjukaffi í Grindavík, heimabæ Guðbergs, og er útgáfan fyrirhuguð vorið 2018.“

Birna leiðir einnig sjálfstætt samstarfsverkefni lista- og fræðimanna, Leiðangurinn á Töfrafjallið, þar sem verkefnið er nálgast með aðferðum myndlistar, bókmennta, samræðna og athafna. Lokatakmark leiðangursins er meðal annars útgáfa á þýðingu Gauta Kristmannssonar á skáldsögunni Töfrafjallið (1924) eftir þýska rithöfundinn Thomas Mann. Útgáfunni verður fagnað sumarið 2020 á Listahátíð í Reykjavík.