Skip to main content

Alþýðumenning í Þingeyjarsýslu: Kynning á Sagnfræðisjóði Aðalgeirs Kristjánssonar

Alþýðumenning í Þingeyjarsýslu: Kynning á Sagnfræðisjóði Aðalgeirs Kristjánssonar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. maí 2024 15:00 til 17:00
Hvar 

Edda

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þann 30. maí næstkomandi, þegar hundrað ár verða liðin frá fæðingu Aðalgeirs Kristjánssonar (1924–2021), verður haldið málþing þar sem kynntur verður nýstofnaður sagnfræðisjóður í hans nafni.

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki og verður fyrsta styrkúthlutun úr sjóðnum í haust. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á vefsíðu hans.

Eftir stutta umfjöllun um markmið sjóðsins verða flutt tvö erindi. Bróðursonur Aðalgeirs, Kristján Árnason, prófessor emeritus í íslensku, flytur erindi sem nefnist „Nú er gamla Ísland horfið: lítið eitt um ævi og störf Aðalgeirs Kristjánssonar” og Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur erindið „Ættir, slekti og óðul. Þingeysk neftóbaksfræði í nýjum dósum“.

Málþingið hefst kl. 15 stendur til kl. 16.30 og að því loknu verður boðið upp á hressingu.

Kristján Árnason, „Nú er gamla Ísland horfið: lítið eitt um ævi og störf Aðalgeirs Kristjánssonar”. Aðalgeir Kristjánsson fæddist á Finnsstöðum í Kaldakinn 30. maí 1924, fjórði í röð sex systkina sem öll komust á legg. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947 og varð cand. mag. frá Háskóla íslands 1953. Hann stundaði framhaldsnám við Óslóarháskóla 1954–1955, vann við sagnfræðirannsóknir og útgáfustörf í Kaupmannahöfn veturna 1955-1958 og í Reykjavík til vors 1959. Dr. phil. varð hann frá Háskóla Íslands 1974. Aðalgeir var ráðinn bókavörður við Landsbókasafn Íslands 1959 og síðar skjalavörður við Þjóðskjalasafn frá 1963. Hann var mikilvirkur sagnfræðingur og sérhæfði sig í sögu nítjándu aldar. Meðal helstu rita hans eru doktorsritgerðin Brynjólfur Pétursson, ævi og störf (1972), Endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn (1999), Nú heilsar þér á Hafnarslóð. Ævir og örlög í höfuðborg Íslands 1800-1850 (1999), Magnús organisti. Baráttusaga alþýðumanns (2000) og Síðasti Fjölnismaðurinn. Ævi Konráðs Gíslasonar (2003).

Viðar Hreinsson, „Ættir, slekti og óðul. Þingeysk neftóbaksfræði í nýjum dósum“. Á skjalasöfnum leynast ókjör heimilda um líf og hugsun hversdagsfólks og er Héraðsskjalasafn Þingeyinga engin undantekning. Einn síðasti fulltrúi gömlu handritamenningarinnar var Helgi Jónsson frá Stafnsholti í Reykjadal, en eftir hann liggja handrit í 13 öskjum á þrem söfnum. Í erindinu verður lítillega greint frá ævi hans og verkum og í kjölfarið stiklað á sögu eins þingeysks ættleggs þar sem stefna má saman opinberum heimildum og sagnaefni fróðleiksfólks á borð við Helga og fleiri Þingeyinga, með áherslu á samfélagið og sambúð fólks við náttúru og auðlindir.

Sagnfræðisjóður Aðalgeirs Kristjánssonar byggist á gjöf hans til Háskóla Íslands. Hann hefur það markmið, samkvæmt erfðaskrá Aðalgeirs, að rannsaka hina sérstöku og sjálfsprottnu alþýðumenningu í Þingeyjarsýslu sem þar varð til á síðari hluta 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu, rætur hennar, einkenni, vöxt hennar og viðgang.

Aðalgeir Kristjánsson (f. 30. maí 1924, d. 18. júlí 2021) lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1953, stundaði framhaldsnám við Óslóarháskóla 1954–55 og vann við rannsóknir og útgáfustörf í Kaupmannahöfn veturna 1955–58. Árið 1974 varði hann doktorsritgerð sína „Brynjólfur Pétursson, ævi og störf“ við Háskóla Íslands. 

Alþýðumenning í Þingeyjarsýslu: Kynning á Sagnfræðisjóði Aðalgeirs Kristjánssonar