Rannsóknir gefa góð fyrirheit | Háskóli Íslands Skip to main content

Rannsóknir gefa góð fyrirheit

Merkar rannsóknir hafa verið unnar hérlendis á sviði brjóstakrabbameins, en Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hefur í tvo áratugi stundað rannsóknir á þessu sviði á rannsóknarstofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði. Í ársbyrjun 2007 færðist rekstur rannsóknarstofunnar til læknadeildar Háskóla Íslands.

Helga fékk nýverið styrk vegna framúrskarandi árangurs við krabbameinsrannsóknir. „Með því að rækta krabbameinsfrumur beint úr æxli er hægt að nálgast betur upplýsingar um hegðun og eðli krabbameinsins í viðkomandi einstaklingi," segir Helga M. Ögmundsdóttir. „Í framhaldi af þessu höfum við þróað aðferðir til að mynda svokallaðar frumulínur úr brjóstaæxlum sem bera sérstaka íslenska stökkbreytingu í áhættugeni fyrir brjóstakrabbameini. Þessar frumulínur erum við nú að nota til að prófa ný lyf, en til eru lyf eða lyfjasprotar sem mikil ástæða er til að ætla að verki sérstaklega á æxli sem hafa gallaða starfsemi í þessu áhættugeni."

Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor í Læknadeild

„Með því að rækta krabbameinsfrumur beint úr æxli er hægt að nálgast betur upplýsingar um hegðun og eðli krabbameinsins í viðkomandi einstaklingi,"

Helga M. Ögmundsdóttir

Að sögn Helgu má vænta þess að lyfin, sem hafa verið reynd við þessar aðstæður á rannsóknarstofum, muni valda miklum breytingum á batahorfum einstaklinga sem greinast með þessi mein. Þess má geta að á ári hverju greinast á Íslandi nærri 150 konur og tveir til þrír karlmenn með krabbamein í brjóstum.

Netspjall