Skip to main content

Um starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun

Um starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun er námsleið í Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. 

Námið er inngildandi og stunda því diplómanemendur nám sitt með öðrum háskólanemum. Námið sem er hálft nám til tveggja ára, er þverfaglegt nám og samanstendur af námskeiðum af mismunandi deildum. 

Við útskrift fá nemendur staðfest námskeið og starfsnám.    

Útskrift úr náminu veitir ekki rétt til áframhaldandi náms innan Háskólans. Námið veitir ekki ECTS einingar.    

Í náminu undirbúa nemendur sig til starfa sem falla undir fræðasvið menntavísinda má þar til dæmis nefna leikskólastarf, tómstunda- og félagsstarf  og starf sem snýr að valdeflingu, hagsmunabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á tengingu nemenda við almennan vinnumarkað og eitt af meginmarkmiðum námsins er að auka möguleika nemenda á samfélagsþátttöku. Einnig er í náminu lögð rík áhersla á réttindabaráttu fatlaðs fólks og mannréttindi. 

Nemendur velja sér starfsvettvang leikskóla, tómstunda- og félagsstarfs eða starf sem snýr að réttindabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á að tengja námið við valinn starfsvettvang í formi námskeiða og starfsnáms á vettvangi. Námið er einstaklingsmiðað og skipulagt út frá þörfum og áhuga hvers nemanda. Námið byggir á hugmyndafræði um menntun fyrir alla, Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skólastefnu Háskóla Íslands.

Starfsvettvangur

  • Frístundaheimili
  • Félagsmiðstöðvar
  • Leikskólar
  • Félagasamtök
  • Réttindabarátta fatlaðs fólks
  • Æskulýðsfélög og sjálfboðasamtök
  • Ýmislegt fleira..

Kennsla og stuðningur í námi

Kennslustundir og verkefni eru að miklu leyti byggð upp á samvinnu allra nemenda. Þannig styðja nemar við hvorn annan í náminu. Auk þess koma verkefnastjórar námsins að stuðningi við nemendur eftir þörfum. Ekki er hægt að aðstoða nemendur við athafnir daglegs lífs (ADL), en þeir sem þurfa slíka aðstoð eiga kost á að stunda námið með sínum persónulegu aðstoðarmönnum eða talsmönnum (NPA). Kennsla fer fram eins og önnur kennsla í háskólanum. Það eru ákveðnir álagaspunktar við verkefnaskil og misserislok og þá er meira að gera. Stundatöflur fyrir hvert misseri koma fram rétt áður en misseri hefst. Viðvera í skóla er í kringum 10 stundir á viku og svo má gera ráð fyrir verkefnavinnu umfram það. Nemendur fara í tvígang á vettvang í starfsnám í 4-6 vikur. Þá er viðvera meiri. Í háskólanámi getur stundatafla verið sveigjanleg og það geta orðið breytingar með stuttum fyrirvara. 

Fyrir hverja er námið?

Tekið er við umsóknum ár hvert og það eru fjöldatakmarkanir í námið. Einkum er litið til þriggja þátta við inntöku nemenda:

  1. Áhugi á námi og starfi á þessum vettvang
  2. Framhaldsskólamenntun og/eða símenntun,
  3. Starfsreynsla.

Húsnæði og aðstaða

Kennsla fer að mestu leyti fram í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð. Þar hefur skapast notalegt samfélag nemenda og eru mikil samskipti þeirra á milli þvert á fræðigreinar auk öflugs félagslífs. Góð vinnu- og lesaðstaða er í húsinu, auk bóksölu, bókasafns og matsölu. 

Spurningar um námið berist til verkefnastjóra 

Verkefnisstjórar: Ágústa Björnsdóttir (agusbjo@hi.is), Helena Gunnarsdóttir (helenagunnars@hi.is) og Jónína Margrét Sigurðardóttir (jms@hi.is)    

Umsjónarmaður námsleiðar: Ástríður Stefánsdóttir (astef@hi.is)    

Tengt efni