Skip to main content

Íslenskubrú yfir í kennslu- og uppeldisstörf

Íslenskubrú yfir í kennslu- og uppeldisstörf  - á vefsíðu Háskóla Íslands

English below

Námskeið í íslensku og menntavísindum

Íslenskubrú er fyrir nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál og starfa í skóla- eða frístundastarfi. Meginmarkmið námsins er að bæta íslenskukunnáttu nemenda, fjölga fagfólki af erlendum uppruna í íslensku menntakerfi og styrkja fjölmenningu í skóla- og frístundastarfi. 

Umsóknarfrestur er til 20. maí en sótt er um á vef HÍ, grunnnám, námsleiðina Íslenska sem annað mál, BA 120 ECTS. Ath. þó að Íslenskubrúin er formlega aðeins 60 einingar.

Með rafrænni umsókn skal skila greinargerð um ½–1 bls. Í greinargerðinni þarf að koma fram að sótt sé um Íslenskubrú og einnig skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, t.d. við hvað hann starfar og hvaða námskeiðum í íslensku hann hefur lokið. Einnig  nokkur orð um hvers vegna hann hefur áhuga á náminu. Við mat á umsóknum verður tekið mið af starfsreynslu og íslenskukunnáttu. 

Inntökuskilyrði

Erlent ígildi íslensks stúdentsprófs eða sambærilegt próf. Nánari upplýsingar er að finna í 17. grein reglna um inntökuskilyrði í grunnnám nr. 331-2022. Umsækjendur geta flett upp ólíkum löndum hér til að sjá hvaða gögnum þeir þurfa að skila. Auk þess þurfa nemendur að standast lágmarkskröfur á inntökuprófi í íslensku sem fer fram 10. júní. Færnikröfur miðast við Icelandic Online I og II sem opið er á Netinu (https://icelandiconline.com/). Nemendur sem ná inntökuprófi fara í viðtal þar sem skráning í námskeið er staðfest. 

Nemendur greiða árlegt skrásetningargjald við Háskóla Íslands líkt og aðrir nemendur, að upphæð 75.000 kr.

Kennslufyrirkomulag

Kennt er á íslensku og nemendur sækja kennslustundir eftir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum.  
Boðið verður upp á staðnám og fjarnám. Fjarnámið er með rauntímaþátttöku á netfundum og engar upptökur verða í boði. Fjarnámsnemendur þurfa að mæta í inntökupróf, miðannarpróf og lokapróf.
Nemendur eru saman í hóp og fá þannig tækifæri til að beina athyglinni að starfsvettvangi sínum í náminu. Verkefnastjóri á vegum Menntavísindasviðs heldur utan um nemendahópinn og veitir ráðgjöf og stuðning. 
Nemendur taka fyrst 40 ECTS einingar í íslensku skólaárið 2024–2025 og skólaárið 2025–2026 taka nemendur 20 ECTS einingar á Menntavísindasviði. Nemendum býðst líka að bæta við sig 20 ECTS í íslensku skólaárið 2025–2026. 
 

Haustmisseri

ÍSE054G Tal og hlustun I
ÍSE056G Lestur og málnotkun I

Vormisseri

ÍSE055G Tal og hlustun II
ÍSE053G  Lestur og málnotkun II

Nánari upplýsingar veitir verkefnisstjóri, Lára Hreinsdóttir, larahr@hi.is

Content in English

Námið er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs.