Skip to main content

Markmiðið er eineltislausir bekkir

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild og doktorsnemi við Félagsráðgjafardeild

„Á undanförnum árum hefur ýmislegt áunnist í baráttunni gegn einelti meðal grunnskólabarna á Íslandi og í mörgum skólum er unnið gott starf. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir að ekki hefur gengið nægilega vel að ná tíðni eineltis niður. Verkefnið gengur út á að breyta þessu, að leita nýrra leiða og bæta þær aðferðir sem við notum í dag,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði, um doktorsverkefni sitt við Félagsráðgjafardeild. Vanda hefur bæði veitt ráðgjöf og haldið fyrirlestra í grunnskólum um einelti og sækir þangað innblásturinn að verkefninu. „Ég hef gegnum árin fengið að heyra lífsreynslusögur barna og foreldra og sársauki þeirra einfaldlega nístir mig inn að beini. Þetta er drifkrafturinn á bak við rannsóknina og alla mína vinnu gegn einelti,“ segir hún.

Vanda Sigurgeirsdóttir

„Ég hef gegnum árin fengið að heyra lífsreynslusögur barna og foreldra og sársauki þeirra einfaldlega nístir mig inn að beini. Þetta er drifkrafturinn á bak við rannsóknina og alla mína vinnu gegn einelti.“

Vanda Sigurgeirsdóttir

Með rannsókninni hyggst hún veita kennurum, skólastjórnendum, nemendum og foreldrum þekkingu og ekki síst verkfæri sem nota má til að bekkir í grunnskólum verði lausir við einelti. „Til að gera þetta verður rætt við þolendur og gerendur því þeirra persónulega reynsla getur gefið okkur innsýn í hvar skórinn kreppir þegar kemur að forvörnum og inngripum í eineltismál. Þá verður einnig rætt við kennara og foreldra,“ útskýrir Vanda, en hún hlaut m.a. styrk úr styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar til rannsóknarinnar.

Engum sem þekkir til dylst hversu slæm áhrif einelti hefur á alla þá sem að því koma. „Það á sérstaklega við börn sem verða fyrir einelti en einnig börn sem leggja í einelti. Þá geta börn orðið fyrir neikvæðum áhrifum af því einu að verða vitni að einelti. Fyrir þolendur og gerendur geta afleiðingarnar verið grafalvarlegar, víðtækar og langvarandi,“ útskýrir Vanda og ítrekar að leita verði allra leiða til að koma í veg fyrir að einelti þrífist meðal skólabarna og meðal fullorðinna á vinnustöðum. „Markmið mitt er því eineltislausir bekkir.“

Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslegan ávinning rannsóknarinnar. „Einelti veldur miklum þjáningum og beinn kostnaður af því er mjög mikill því bæði þolendur og gerendur eineltis þurfa oft og tíðum á kerfum og þjónustu samfélagsins að halda. Rannsókninni er ætlað að hafa hagnýtt gildi en hún hefur einnig vísindalegt gildi því ekki er til önnur sambærileg rannsókn á Íslandi, eftir því sem best er vitað,“ segir Vanda.

Leiðbeinendur: Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild.