Skip to main content

Hreyfing og námsárangur

Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild 

„Markmið okkar er að skoða tengsl námsárangurs barna á samræmdum prófum við holdafar, hreyfingu og þrek. Við skoðum þessi tengsl við níu, tólf og fimmtán ára aldur,“ segir Erlingur S. Jóhannsson, prófessor á Laugarvatni, um rannsókn sem hann vinnur nú að. Hann hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir rannsóknir sínar á heilsu ungmenna og mikilvægi hreyfingar.

Erlingur segir að á unglingsárum verði miklar breytingar í lífi fólks m.a. í andlegum og líkamlegum þroska, í auknu sjálfræði og í félagslegu umhverfi sem tengist ekki síst menntun þegar ungmenni fari úr grunnskóla í framhaldsskóla.

Erlingur S. Jóhannsson

„Markmið okkar er að skoða tengsl námsárangurs barna á samræmdum prófum við holdafar, hreyfingu og þrek. Við skoðum þessi tengsl við níu, tólf og fimmtán ára aldur.“

Erlingur S. Jóhannsson

„Aukin þekking á þróun og breytingum í atgervi og heilsufari ungmenna á unglingsárunum, og hvernig þessir þættir tengjast lifnaðarháttum þeirra og almennri virkni í daglegu lífi, eru allt mjög áhugaverð viðfangsefni í rannsóknum. Annar áhugaverður hvati er að skoða mikilvægi hreyfingar, iðkun íþrótta og heilsuræktar og tengsl lífsstíls við árangur í námi, bæði í grunn- og framhaldsskóla,“ segir Erlingur.

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir en þær munu væntanlega sýna hvort félagslegir og sálfræðilegir þættir skipti miklu máli í sambandi hreyfingar og holdafars við frammistöðu í námi hjá börnum og ungu fólki.

„Ný þekking, sem fæst í þessari rannsókn, mun nýtast til að betrumbæta forvarnar- og heilsueflandi starf meðal íslenskra ungmenna. Þekkingin mun þó ekki bara nýtast ungmennunum sjálfum heldur líka menntayfirvöldum, skólastjórnendum, heilbrigðisyfirvöldum sem og öðrum sem vinna í grunn- og framhaldsskólum landsins,“ segir Erlingur.